137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[21:06]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það mátti lesa það úr orðum hæstv. utanríkisráðherra að hann hefði verið fluga á vegg á flokksþingi Framsóknarflokksins og ég hefði að sjálfsögðu boðið hann velkominn. Ég hefði þegið eitt eða tvö atkvæði í viðbót og ég veit að hann hefði stutt mig. Það er alveg ótrúlegt til þess að hugsa hvernig menn geta fengið þetta út vegna þess að hér er ég nú með einmitt flokksályktunina, sem sagt þessa breytingartillögu sem er orðrétt. Þar nefnilega stendur orðið skilyrði, tvípunktur og svo a, b, c, d, e, f, g, h. Það getur vel verið að einhvers staðar annars staðar í ályktuninni standi samningsmarkmið og ég held að það sé nú svona bara til þess að hafa fallegra orðalag á þessu. En hvernig menn fá það út að samningsmarkmið og skilyrði séu sama orðið samkvæmt eðlilegri málvitund, það fæ ég engan veginn skilið. Ef það er þannig bið ég alla íslenskufræðinga landsins að stíga fram og endurskilgreina orðið skilyrði fyrir þjóðinni vegna þess að ég skil það öðruvísi. Ég skil það þannig að ef þú setur einhver skilyrði þýði það að þú ætlar ekki að ganga að neinu nema að þeim uppfylltum.

Varðandi Maastricht-skilyrðin þá deilir hæstv. utanríkisráðherra í með tveimur. En hefur utanríkisráðherra ekki myndað sér sjálfstæða skoðun á þessu máli og hefur hann ekki kannað af sjálfsdáðum og farið kannski yfir álit fleiri efnahagsráðgjafa en hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar vegna þess að þetta er algert grundvallaratriði? Því er haldið hér fram að atvinnulífið muni blómstra ef við göngum (Forseti hringir.) í Evrópusambandið. En ég hef einfaldlega ekki séð nein rök á prenti fyrir því að hægt sé að reikna með því að það verði (Forseti hringir.) hér að minnsta kosti á næstu árum.