137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[21:08]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég nefndi hv. þm. Tryggva Þór Herbertsson til sögunnar ekki bara vegna þess að hann er fyrrverandi efnahagsráðgjafi minn með alkunnum afleiðingum heldur vegna þess að hann er líklega glúrnasti hagfræðingurinn sem hér situr inni. Ég sjálfur tel að það sé fyrst og fremst skuldahlutfallið sem við munum eiga í erfiðleikum með við að glíma við og það mun taka okkur fjögur til fimm ár. Ég tel það.

Snúum okkur þá að skilyrðum Framsóknarflokksins. Menn eiga að lesa heima, frú forseti. (SDG: ... þráhyggjan.) Ég hef ræðu hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur. Þar er hún að lýsa því sem gerðist á flokksþingi Framsóknarflokksins. (Gripið fram í.) Hún les upp úr fundargerð og segir svo um þetta orð þegar lagt er til að orðinu skilyrði undir kaflanum Fyrstu skref sé breytt í samningsmarkmið. Hún les upp og segir, með leyfi forseta:

„Í fundargerðinni stendur: „Það var fellt með afgerandi hætti að breyta þessu orði „samningsmarkmið“ í orðið „skilyrði““. En þingforseti sagði: „Þetta er fellt, það er kristaltært“, ...“

Þetta er fundargerð af flokksþingi Framsóknarflokksins. Þurfa framsóknarmenn að deila við utanríkisráðherra um það hvað gerðist þar? Nei, þeir þurfa ekki að gera það. Þetta er lesið upp úr fundargerð af þinginu og ekki af mér heldur af hv. þm. Siv Friðleifsdóttur. Ég veit að vísu að hv. þingmaður átti sína stærstu stund á því þingi og ég gladdist innilega þegar hann var kjörinn og dapraðist geð mitt til muna þegar í ljós kom að það var með öðrum hætti. En við getum þó báðir glatt okkur við það að Framsóknarflokkurinn hefur eigi að síður eignast glæsilegan leiðtoga (Gripið fram í.) sem er bara að standa sig nokkuð vel. (Gripið fram í.) Ég er ekki að halda því fram að hv. þingmaður hefði ekki líka staðið sig vel. En svona er þetta. Hver sem er formaður Framsóknarflokksins eða ekki í dag — ég veit að vísu hver það er og hann stendur sig vel — þá er það alveg ljóst að hér er þetta í gadda slegið í fundargerð flokksins. Ekki lýgur sá sem það hefur skrifað því ég veit líka hver það var.