137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[21:10]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er eins og mig grunaði að hæstv. utanríkisráðherra er einlægur aðdáandi minn og ég hans vegna þess að ég hef lagt mig í líma við að temja mér fas hans, (Gripið fram í: Nú?) ekki bara hér í ræðupúlti heldur líka útlitslega séð tel ég hann vera fyrirmynd annarra karlmanna að því leyti. (Gripið fram í.)

Mér finnst ansi skondnar, eins og ég segi, þessar túlkanir á flokksþingi Framsóknarflokksins. Hér í salnum er einmitt staddur sá sem bar fram tillöguna um skilyrðin (Gripið fram í.) og til eru myndbandsupptökur af þessu (Gripið fram í.) flokksþingi og allt saman er þetta meitlað í stein, (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Jú, jú.) (Gripið fram í: Getum við fengið að sjá hana?) hæstv. forseti. Hann sagði — við skulum hafa það alveg á hreinu — að þetta væru skilyrði fyrir því að fara í þessar viðræður. Síðan voru ótal tillögur um hitt og þetta felldar í kjölfarið vegna þess að ég held að mönnum hafi einfaldlega verið nóg boðið og Evrópuumræðan var komin á það stig. (Gripið fram í.)

Ég held að hv. þm. Siv Friðleifsdóttir fari með rétt mál. Ég hins vegar túlka niðurstöðuna allt öðruvísi og ég held til dæmis að þegar menn segja hér „þessi helstu samningsmarkmið“ að þá sé bara verið að vísa í skilyrðin, hvorki meira né minna. Það á ekkert að túlka það á neinn annan hátt vegna þess að í gömlu flokksályktuninni stóð einmitt „leiðir“. Nú er ég bara þannig að ég tel að skilyrði og leiðir (Forseti hringir.) séu ekki sama orðið. En eins og ég segi, þetta er mín túlkun á (Forseti hringir.) því sem ég held að sé almenn málvenja. (Utanrrh.: Leiðarskilyrði.) (Gripið fram í.)