137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[21:35]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er talsmaður upplýstrar umræðu og ég trúi því að hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson sé sömu skoðunar. Ég tel að upplýst umræða um jafnmikilvægan og merkan hlut og hugsanlega inngöngu Íslendinga í Evrópusambandið eigi að byggjast á öllum gögnum og þar á meðal á samningsdrögum sem liggi fyrir vegna þess að við getum aldrei sem þjóð talað endanlega og upplýst um þetta mál nema við höfum fyrir framan okkur hvað er sannarlega í boði. Annað er spádómur, véfregn. Við hljótum að taka upplýsta ákvörðun byggða á grunni samnings sem liggur fyrir, hitt er í versta falli gamaldags kjaftasaga.

Við eigum að byggja sýn okkar á þeim möguleikum sem landbúnaðurinn hefur, þar á meðal störf afleidd af honum. Ég tel að það séu einmitt sóknarfæri fyrir afurðastöðvar úti um land að fá fellda niður tolla í tengslum við Evrópusambandið og flytja út íslenskar landbúnaðarafurðir í meira mæli en hefur verið gert. En það ræðst vitaskuld allt af þeim samningum sem væru til staðar og þá fyrst getum við skoðað hvað er í boði í þessari umræðu.