137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[22:00]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Illuga Gunnarssyni fyrir hans ræðu. Það var mjög áhugavert að hlusta á hana. Ég hef áhuga á að heyra aðeins frekar frá honum. Hann talaði töluvert um áhyggjur sína af öldrun í Evrópusambandinu og hvaða áhrif hún mundi hafa á efnahagskerfi þeirra landa sem eru í Evrópusambandinu. Mér skilst að þetta sé vandamál sem fleiri vestrænar þjóðir hafa áhyggjur af.

Ég ætlaði svo sem ekki neitt sérstaklega að tækla það. Ég hef meiri áhuga á að heyra frá hv. þingmanni hvaða hugmyndir og lausnir hann hefur varðandi þetta vandamál sem myntin er. Ég hefði líka gjarnan áhuga á að heyra frá honum hans skoðanir, því ég reikna með að hann hafi kynnt sér þetta tiltölulega vel, hvenær hann telji að við getum uppfyllt Maastricht-skilyrðin og hvaða þættir varðandi það hann teldi erfiðast fyrir okkur að uppfylla.

Síðan ef hann hefur tíma til — ég veit að þetta eru stórar spurningar sem tekur kannski aðeins meira en tvær mínútur að svara. En ég veit að hann mun væntanlega gera sitt besta til að svara þeim — hvað er það í hugmyndafræði Evrópusambandsins nákvæmlega sem fellur ekki að hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins? (Gripið fram í.)