137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[22:02]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Ég væri kraftaverkamaður, frú forseti, ef ég gæti svarað þessu öllu í andsvari. En ég skal byrja á þessu öllu saman alla vega.

Hvað varðar peningamálastefnuna þá tel ég alveg einsýnt að hvað svo sem verður með umsókn að ESB þá þarf auðvitað að finna leiðir til að vinna með krónunni á næstunni. Ég tel að að stofni til muni menn horfa meira en áður var gert á svokallaðar flæðistærðir, þ.e. á innflutninginn, á útflutninginn, á þróun viðskiptahalla og þess háttar stærða og reyna að hafa áhrif þar á og hafa áhyggjur af þeim en láti það ekki bara vera þannig að menn einblíni einungis á verðbólgumarkmiðið. Ég held að menn hafi auðvitað lært af reynslunni og muni gæta þess miklu betur hér í framtíðinni að samþætta ríkisfjármálin og reyndar fjármál hins opinbera, þ.e. sveitarfélögin líka með peningamálastefnunni. Ég held að við hefðum getað gert það miklu betur en raun varð á.

Hvað varðar Maastricht-skilyrðin og hvar mestur vandinn muni verða þá held ég að segja megi ljóst að erfitt verði að ná skuldastöðunni viðunandi. Ég held að það sé orðið mjög ljóst. Hitt er það auðvitað að flest önnur Evrópuríki eru komin út fyrir Maastricht-skilyrðin og það eru einmitt skilyrði í þeim skilningi sem ég tel að Framsóknarflokkurinn sé að tala um. Þetta eru ekki Maastricht-markmið heldur eru það skilyrði. Þess vegna má kannski velta því fyrir sér hver verði niðurstaðan með það mál allt saman innan ESB. Erfitt er um slíkt að spá. En það er alveg ljóst að það mun verða erfiðast fyrir okkur hvað þetta varðar.

Hvað varðar hugmyndafræðina þá er það mjög áhugaverð spurning og ég vildi gjarnan geta haldið langa ræðu til að fjalla um það. En það verður að segjast eins og er að eitt af því sem okkur sjálfstæðismönnum finnst erfitt í þessu öllu saman er að sjá hversu mikið vald safnast saman í höndum embættismannanna í Brussel sem er ótengt almenningi í ríkjum bandalagsins, sem er ekki bein lýðræðisleg tenging á milli. Það er vandamál og það grefur um sig og hefur margvíslegar afleiðingar (Forseti hringir.) innan bandalagsins.