137. löggjafarþing — 45. fundur,  16. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[10:42]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Frú forseti. Það er til marks um þann blæ sem er á þessum degi að jafnvel þeir samfylkingarmenn sem yfirleitt eru frekar frjálslegir til fara hafa sett upp bindi í dag. Því miður er það ekki vegna þess að þetta sé sérstakur hátíðardagur fyrir þjóðina því að umræðan snýst ekki um hagsmuni þjóðarinnar eða stöðu hennar, hún snýst um hagsmuni og stöðu Samfylkingarinnar. Þannig hefur þetta stóra mál, sem lengi hefur verið deilt um í íslensku þjóðfélagi og menn hafa eðlilega skiptar skoðanir á, verið gert að máli eins flokks og ríkisstjórnarinnar.

Nú eru þau boð látin út ganga í ríkisstjórninni að í raun muni menn ekki að greiða atkvæði um umsókn um aðild að Evrópusambandinu, þeir greiði atkvæði um ríkisstjórnina. Samfylkingin hefur sem sagt ekki meiri trú á þessu stærsta máli sínu en svo að hún vill ekki að þingmenn taki afstöðu til þess út frá málinu sjálfu heldur einhverju öðru og þá er ríkisstjórnin sjálf lögð að veði.

Ég held reyndar að Vinstri grænir hafi enga ástæðu til þess að óttast afleiðingar þess ef þeir greiða atkvæði samkvæmt sannfæringu sinni í dag vegna þess að á meðan einhver von er til þess að sótt verði um aðild að Evrópusambandinu mun Samfylkingin áfram sitja í stjórn. Og jafnvel þó að Samfylkingin fyrtist svo við að menn gerðu það sem lagt var upp með í upphafi og greiddu atkvæði samkvæmt sannfæringu sinni mundi staða Vinstri grænna eingöngu styrkjast við það.

Hvað kæmi þá á daginn? Yrði það þjóðstjórn undir forustu formanns Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, ætli það væri ekki líklegasta niðurstaðan? Eða hugsanlega eins og þegar þjóðstjórn var mynduð hér síðast á stríðsárunum og einn flokkur var ekki talinn stjórntækur, að það yrði mynduð eins konar þjóðstjórn fjögurra flokka. Í báðum tilvikum held ég að óhætt sé að segja að staða Vinstri grænna væri sterk. Menn eiga því ekki í þeirri stöðu sem nú er upp komin að láta kúga sig, láta beygja sig frá eigin sannfæringu. Við verðum að ráðast í þetta stóra mál og taka ákvörðun um það eingöngu út frá sannfæringu hvers manns um sig.

Það hvernig haldið hefur verið á þessu máli öllu og tímasetningin segir líka sitt um hversu mikla trú þeir sem hvað mest tala fyrir þeirri leið sem hér er verið að leggja upp með hafa á málinu. Það er reynt að keyra þetta í gegn í júlímánuði þegar íslenskt samfélag er yfirleitt í hálfgerðum dvala og sem allra minnstar líkur á að mikil og uppbyggileg umræða verði í samfélaginu. Allt ber þetta að sama brunni. Menn vilja raunverulega ekki ræða málin, menn vilja ekki fá hina eiginlegu niðurstöðu og sannfæringu þjóðarinnar í málinu, þeir vilja nota tækifærið, nota tækifærið eftir að hér hefur allt hrunið efnahagslega, nota tækifærið á meðan þjóðin er í sumarfríi, nota tækifærið á meðan hægt er að þvinga þingið til þess að klára hlutina á nokkrum dögum, nota þetta tækifæri til þess að koma málinu í gegn. Ber það vott um mikla sannfæringu hvað þetta mál varðar?

Það er sorglegt, bæði fyrir þá sem aðhyllast aðild að Evrópusambandinu og þá sem gera það ekki og þá sem aðhyllast eingöngu aðildarumsókn og þá sem gera það ekki, að málið sé unnið með þessum hætti vegna þess að með því getur niðurstaðan ekki orðið annað en slæm fyrir alla. Ef við leggjum upp á þennan hátt, hvernig samning greiðum við þá atkvæði um eftir þrjú ár? Verður það góður samningur? Varla, miðað við það sem við höfum þegar séð gerast í Icesave-samkomulaginu því að nú er lagt upp á nákvæmlega sama hátt. Íslendingar ætla ekki að mæta Evrópusambandinu uppréttir, segja því hvað þeir hafi upp á að bjóða. Þeir ætla að fara í aðildarviðræður við Evrópusambandið á þeim forsendum að hér hafi allt farið svo illa og þess vegna viljum við ræða við sambandið. Þetta er nú þegar orðin umræðan í Evrópu, í evrópskum fjölmiðlum, að Íslendingar hafi enga sannfæringu fyrir Evrópusambandinu, þeir séu hins vegar að sækja um núna til þess að redda málunum vegna þess að þeir séu komnir í slík vandræði. Þá ætli þeir að koma á hnjánum til Evrópusambandsins. Það er ekki mikið stolt í þessu, þetta er ekki mjög íslenskt, þetta er einhvern veginn svo svekkjandi þegar maður hélt að við mundum nota þá krísu sem þjóðin lenti í til þess að byggja okkur upp. Auðvitað ætti umræða um Evrópusambandið að vera hluti af því, umræða um Evrópusambandið ætti að vera mjög stór hluti af því.

Framsóknarflokkurinn hefur lagt mat á hugsanleg áhrif þess að fara í viðræður við Evrópusambandið og Framsóknarflokkurinn hefur ályktað um að fara eigi í viðræður við Evrópusambandið. Það byggist á því að öll, nánast öll erum við nokkurn veginn sammála um þá hagsmuni sem ber að gæta. Meira að segja hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, hefur nú lýst því yfir að hann telji að ekki eigi að fallast á samninga við Evrópusambandið ef menn muni ekki standa vörð um íslenskan landbúnað. Menn ráða því svo hversu mikið mark þeir taka á því að Samfylkingin mundi fella samning við Evrópusambandið, sem hún hefði sjálf gert, ef hún teldi að ekki væri staðið nógu vel að verki hvað varðar íslenskan landbúnað.

Það breytir þó ekki því að allir, a.m.k. í orði, eru sammála um þá hagsmuni sem ber að verja. Í því felast kostir þess að fara í aðildarviðræður með ákveðin skilyrði, eins og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir leggur til í breytingartillögu sinni í samræmi við ályktun Framsóknarflokksins, vegna þess að ef við förum í viðræður með ákveðin skilyrði erum við að styrkja samningsstöðu okkar. Við erum að styrkja samningsstöðu Samfylkingarinnar líka, Samfylkingin ætti að fagna þessu. Hún hlýtur að gera sér grein fyrir því hversu erfið samningsstaðan er fyrir hana ef hún fer ein í þessa vegferð með mjög tæpan meiri hluta á bak við sig. Það vita allir í Evrópu hvernig Samfylkingin er stemmd í þessu máli, það vita það allir að fulltrúar hennar í samningaviðræðum eru ekki í aðstöðu til annars en að þiggja hvað sem býðst. Það sér enginn fyrir sér að fulltrúar Samfylkingarinnar snúi heim eftir þrjú ár og segi að því miður hafi bara ekki tekist að semja við Evrópusambandið, það hafi ekki náðst samningar svo að það sé ekki neitt til þess að greiða atkvæði um.

Að sjálfsögðu yrði það aldrei niðurstaðan og þetta veit Evrópusambandið og mun þess vegna bjóða sáralítið ef lagt verður upp á þann hátt sem gert er ráð fyrir hér í dag. Þess vegna væri það betra fyrir Samfylkinguna, það væri betra fyrir alla að við staðfestum það sem við erum öll sammála um í orði, að ákveðna grundvallarhagsmuni beri að verja og það sé ófrávíkjanlegt. Hæstv. utanríkisráðherra og fleiri hafa reynt að snúa út úr þessu og telja þessa hagsmuni þegar tryggða. Ef sú er raunin, ef það er raunverulega búið að taka inn þessi skilyrði Framsóknarflokksins, eins og hæstv. utanríkisráðherra heldur fram, ætti ekki að vera neinum vandkvæðum háð að samþykkja breytingartillögu hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur. Þá getur þjóðin verið tiltölulega róleg og örugg í því að það sem fram fer næstu árin verði þess eðlis að þessum grundvallarhagsmunum þjóðarinnar verði ekki fórnað. Séu þessi skilyrði ekki til staðar mun eitt óhjákvæmilega leiða af öðru og við yrðum aftur sett í sömu stöðu og við höfum verið sett í í Icesave-málinu, að hér kæmi ómögulegur samningur, sem hugsanlega yrði fyrst hafður glæsilegur en eftir því sem farið yrði að skoða hann betur mundu menn líklega átta sig á því að sú væri ekki raunin. Þá yrði lögð áhersla á að ekki væri um annað að ræða en að staðfesta samninginn vegna þess að yrði það ekki gert færi hér allt í kaldakol, við ættum í rauninni ekki annan kost.

Öll sú umræða sem hér hefur farið fram af hálfu stjórnarflokkanna um að vilji þingsins verði virtur að lokum, er hún ekki býsna lík umræðunni sem átti sér stað þegar var lagt af stað í viðræður um Icesave? Hvað gerist svo þegar búið er að gera samning sem er algjörlega óásættanlegur? Þá hefur þingið ekkert val lengur, það er talið óviðeigandi að þingmenn stjórnarinnar a.m.k., og raunar talið óviðeigandi líka að þingmenn stjórnarandstöðu greiði atkvæði gegn samningnum. Telja einhverjir að málið yrði eitthvað öðruvísi þegar kominn væri samningur við Evrópusambandið? Telja einhverjir að þingmenn Samfylkingarinnar fengju frelsi til þess að greiða atkvæði um þann samning eins og þá lystir eða þingmenn Vinstri grænna ef þessi stjórn heldur? Nei, það yrði að sjálfsögðu ekki raunin og þessi mál tengjast náið þó að ekki vilji ríkisstjórnin kannast við það.

Núna í morgun birtist grein í dagblaðinu Financial Times þar sem sagt er frá þeim umræðum sem fram fara hér í dag. Þar er útskýrt hvernig þessar umræður tengjast Icesave-samningnum og því að Bretar og Hollendingar vilji að Íslendingar fallist á Icesave-samningana og að Evrópusambandsumræðan sé nátengd því máli. Ég þurfti reyndar ekkert að lesa þetta í Financial Times í morgun vegna þess að ég var fyrir nokkrum vikum á fundi í breska þinginu til þess að ræða Icesave-málið. Þar var okkur gert ljóst af hálfu bresku þingmannanna og fulltrúa breska utanríkisráðuneytisins að þessi mál væru nátengd. Þegar við höfðum útskýrt það hvers vegna það hefði verið ósanngjarnt, svo vægt sé til orða tekið, að beita Íslendinga hryðjuverkalögum og hvers vegna lagaleg staða Íslendinga í Icesave-málinu væri sterk var svarið: Já, en þið hafið áhuga á því að ganga í Evrópusambandið. Ef við göngum frá þessu Icesave-máli verður það allt miklu auðveldara, þá getum við aðstoðað ykkur við það og þá verður allt miklu betra.

Hvort sem menn vilja ganga í Evrópusambandið eða ekki, vilja þeir fara í viðræðurnar upp á þessi býti? Vilja þeir fara í viðræðurnar á versta hugsanlega tíma? Eða vilja menn fara yfir málið, vinna það almennilega, eins og fulltrúar Sviss á EFTA-fundi í Noregi fyrir nokkrum vikum bentu okkur Íslendingum á, hugsa hlutina til lengri tíma, undirbúa? Það þekkja flestar Evrópuþjóðir líklega betur en Íslendingar að hugsa til langs tíma og ekki hvað síst Svisslendingar, sem reyndar fóru þá leið að greiða atkvæði um hvort ætti að fara í viðræður. Þeir bentu Íslendingum á það að jú, við værum að vísu í vandræðum, við værum að vísu í verulegum vandræðum, en það mundi vonandi ekki vara lengi. Og þeir bentu okkur á að taka þó ákvarðanir, ekki út frá þeim skammtímavandræðum heldur til langs tíma. Það getur vel verið að Íslendingar telji hag sínum best borgið innan Evrópusambandsins til langs tíma. Mjög margir innan Framsóknarflokksins eru þeirrar skoðunar og mjög margir innan flokksins eru þeirrar skoðunar að það eigi að fara í viðræður við Evrópusambandið, enda er það fullgilt sjónarmið. En að leggja í þessar viðræður með þeim hætti að það geti ekki annað en orðið til tjóns bæði fyrir þá sem vilja inngöngu í Evrópusambandið og þá sem vilja það ekki er ekki ásættanleg niðurstaða. Það er í raun ekki í raun eðlilegt að menn skuli velta því fyrir sér ef þeir hugsa hlutina rökrétt. Eigum við ekki í þessu stærsta hagsmunamáli þjóðarinnar að reyna að hugsa hlutina rökrétt í stað þess að reyna að knýja þetta í gegn í júlímánuði með sem allra minnstri umræðu í þjóðfélaginu?

Því er haldið hér fram að ekki sé nein ástæða til þess að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður við Evrópusambandið og ég var því alveg sammála. Ég var því sammála að ekki þyrfti þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður ef fyrir lægi að ákveðnir grundvallarhagsmunir yrðu ekki gefnir eftir. Að þessir grundvallarhagsmunir yrðu varðir hvað sem á gengi, það yrði ekki gerður samningur sem fórnaði þeim. Þá gat þjóðin öll verið sátt við viðræðurnar. En þegar lagt er upp með þessum hætti verður þjóðin að fá að taka um það ákvörðun. Og það er nú ekki eins og verið sé að taka ákvörðun um ekki neitt. Um hvað erum við að kjósa hér í dag? Þess vegna skil ég ekki þau rök að þjóðin hafi ekkert til að kjósa um. Hún kýs um nákvæmlega það sama og þingið verður látið kjósa um hér á eftir fái hún að greiða um þetta atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hefur hún til þess verri forsendur? Er málið of flókið fyrir þjóðina? Það væri áhugavert að heyra álit hæstv. fjármálaráðherra á því hvort þetta mál sé of flókið.

Hæstv. fjármálaráðherra taldi ásamt flokksfélögum sínum mörgum að eðlilegt væri að þjóðin fengi að greiða atkvæði um Kárahnjúkavirkjun og byggingu álvers á Austfjörðum. Samkvæmt þeim rökum sem nú er haldið á lofti hefði þjóðin væntanlega ekki átt að greiða atkvæði um það hvort farið yrði í þá framkvæmd heldur hefði fyrst átt að gera samninginn. Fyrst að gera samning um byggingu Kárahnjúkavirkjunar og álversins og svo gæti þjóðin fengið að greiða atkvæði um þann samning. Nei, það er ekki eðlileg nálgun og ekki í þessu máli heldur þegar lagt er upp með þessum hætti. Þetta er mál sem mun ráða för í íslenskri stjórnsýslu næstu árin. Þetta er mál sem mun kosta gríðarlega peninga, það hefur verið nefndur einn milljarður, sem eru miklir peningar. En verum raunsæ, hver telur að kostnaðurinn verði í raun bara einn milljarður? Hver var kostnaðurinn við umsókn um aðild að öryggisráði Sameinuðu þjóðanna? Hver er kostnaðurinn við skilanefndir bankanna, nokkra lögfræðinga sem hafa unnið þar í einhverjar vikur og mánuði? Er hann ekki kominn í milljarð nú þegar? Telja menn að það þurfi að kosta minna til í margra ára viðræðum við Evrópusambandið? Eigum við ekki að fara að ræða þetta mál af raunsæi? Eigum við ekki að leyfa þjóðinni að fá upplýsingarnar sem hún þarf til þess að leggja á það mat svoleiðis að menn geti þá verið sáttir, menn geti verið sáttir við að það sé raunverulegur vilji, það sé bakland i í þessum viðræðum.

Þá segja fulltrúar stjórnarinnar að það sé ekki gott vegna þess að ef þjóðin er búin að greiða atkvæði um það að hún vilji fara í aðildarviðræður sé búið að veikja samningsstöðu Íslendinga. Hvernig menn fá það út skil ég ekki, allra síst Samfylkingin. Hvaða samningsstöðu telur Samfylkingin sig hafa í þessu máli? Nei, ef þjóðin er búin að greiða atkvæði um að hún vilji fara í viðræður — því er alltaf haldið til haga hér að þetta séu bara viðræður en ekkert annað — hverju breytir það um samningsstöðuna? Er samningsstaða Íslendinga þá ekki sterkari? Við erum þó bara að greiða atkvæði um viðræður, ekki endanlegan samning eins og iðulega er haldið hér til haga. Það hlyti þá að vera betra fyrir alla að fyrir lægi ákveðinn vilji til þess að fara í viðræður en hann segði ekkert um endanlega niðurstöðu, enda sýna skoðanakannanir það, sem mönnum er gjarnt að vitna í hér í umræðunni, að meiri hluti Íslendinga vill fara í viðræðurnar en minni hlutinn telur að hann muni samþykkja samning á endanum. Að því leytinu til er þetta sami hluturinn en báðir eru það stórir að það er full ástæða til þess að greiða um þá atkvæði eigi að ráðast í þetta í þeirri óvissu sem hér er lagt til þar sem þessir miklu grundvallarhagsmunir, sem allir eru þó sammála um, eru upp í loft.

Hvað svo með þessa atkvæðagreiðslu í lokin, þau rök að í raun sé niðurstaða hennar bindandi vegna þess að þingmenn eigi að greiða atkvæði eftir niðurstöðu atkvæðagreiðslu sem væri ráðgefandi? Ef það munar bara fimm atkvæðum í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu eiga þá allir þingmenn að greiða atkvæði í samræmi við þá niðurstöðu? Segjum sem svo að með fimm atkvæða mun yrði aðildarsamningi við Evrópusambandið hafnað eftir þriggja ára samningaviðræður. Munu þá allir þingmenn Samfylkingarinnar greiða atkvæði gegn samningnum vegna þess að í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem kannski 50% þjóðarinnar tóku þátt, voru fimm fleiri sem vildu hafna samningnum en samþykkja hann? Ég á svolítið erfitt með að sjá það fyrir mér. En þó ekki væri nema formsins vegna hlýtur þjóðin raunverulega að fá að hafa síðasta orðið frekar en að gefa aðeins ráðgefandi álit. Ef menn ætla að fara þá braut geta þingmenn farið að taka ákvarðanir eftir skoðanakönnunum og ég veit ekki hvort Samfylkingin vill ganga alveg svo langt eða færa sig lengra niður þá braut.

Ef við hefðum hér í þinginu í sumar rætt af sama kappi og sama ákafa og stjórnarflokkarnir hafa gert í Evrópusambandsmálinu um stöðu heimilanna, um endurreisn bankanna og lausnir í þeim efnum, ef jafnmiklu af tíma ríkisstjórnarinnar hefði verið varið í það að finna lausnir fyrir skuldsett heimili og fyrirtæki, koma atvinnulífinu hér aftur í gang, þá væri kannski byrjað að rætast hér úr og þá væri kannski komin upp einhver samningsstaða gagnvart Evrópusambandinu. Þá gætum við kannski farið að ræða það í raun að taka þetta næsta skref til framtíðar, að ræða við Evrópusambandið um aðild Íslands, ekki bara næsta árið heldur til allrar framtíðar vegna þess að þetta er vissulega langtímaákvörðun þó að sumir virðist telja sig geta tekið hana út frá skammtímahagsmunum.

Samningsstaða okkar verður ekki viðunandi fyrr en við förum að sýna það hér heima fyrir að við getum tekið á málum. Ef það yrði þjóðaratkvæðagreiðsla um hugsanlegar aðildarviðræður við Evrópusambandið ætli það væri þá ekki bara býsna góður hvati fyrir ríkisstjórnina að fara nú loksins að taka á málum hérna heima fyrir svoleiðis að þjóðin hefði þá trú á því þegar að atkvæðagreiðslunni kæmi að við værum í stakk búin til að fara í viðræðurnar? Ef sú væri raunin og ef við værum búin að finna ásættanlega lausn á Icesave-samningunum í millitíðinni, því að þar enn og aftur kemur röng forgangsröð upp, en ef við værum byrjuð að taka á málum hér heima fyrir, þá gætum við farið í aðildarviðræður við Evrópusambandið og raunverulega staðið vörð um hagsmuni okkar. Við gætum staðið vörð um þá gríðarlegu hagsmuni sem við höfum að verja og með því styrkt samningsstöðu okkar, því að þrátt fyrir allt gæti samningsstaða okkar gagnvart Evrópusambandinu bara orðið býsna góð. Þá gætum við kannski fengið einhverjar af þessum undanþágum sem stöðugt er verið að gefa í skyn að við getum — ólíkt öðrum þjóðum — fengið. Það má vel vera vegna þess að Ísland hefur gríðarlegar auðlindir í formi orku, sjávarútvegsins, olíuauðlinda hugsanlega og þó sérstaklega staðsetningar landsins sem er Evrópusambandinu svo mikilvæg að það hefur þegar skipað sérstakan sendiherra fyrir norðurskautssvæðið. Hagsmunirnir eru ljósir. Þeir eru miklir, en verðum við í aðstöðu til þess að verja þessa hagsmuni og nýta þá til að fá eitthvað á móti í viðræðum við Evrópusambandið? Nei, það verðum við ekki ef lagt verður upp með þessum hætti. En ef við ætlum að fara í viðræður strax eða sem fyrst er staðan strax miklu, miklu betri ef þjóðin tekur um það sameiginlega ákvörðun. Það breytir þá sérstaklega því að þá væri hugsanlega búið að setja ríkisstjórnina í þá stöðu að hún yrði að virða það sem kemur fram í greinargerð með þessari þingsályktunartillögu. Í ljósi reynslunnar held ég að fáir þingmenn hafi raunverulega trú á því að allt þetta samráð og þessi opna umræða verði virt.

Enn í gær vorum við að finna faldar skýrslur. Hver trúir því að þar yrði skyndilega breyting á þegar Samfylkingin væri komin í viðræður við Evrópusambandið? En ef hún væri búin að lofa þjóðinni þessu, ef Samfylkingin stæði frammi fyrir því að hún hefði heitið þjóðinni því, þjóðinni sem hefði greitt atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu, að virða þetta samráð, virða þessa upplýsingagjöf er staðan strax orðin önnur og sterkari.

Þar af leiðandi skora ég á þingmenn í dag að greiða atkvæði samkvæmt sannfæringu sinni og á þann hátt, hvort sem þeir eru hlynntir aðild að Evrópusambandinu eða ekki, að staða Íslands verði sem sterkust.