137. löggjafarþing — 45. fundur,  16. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:03]
Horfa

Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Áður en atkvæðagreiðslan hefst og með hliðsjón af því að margir utan þessa þingsalar fylgjast með atkvæðagreiðslunni en hafa ekki þingskjölin við höndina vill forseti skýra hvernig atkvæðagreiðslan fer fram.

Fyrst fara fram atkvæðagreiðslur um þrjár breytingartillögur sem eru við breytingartillögu meiri hluta utanríkismálanefndar. Fyrsta tillagan er frá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur en önnur og þriðja tillagan eru frá hv. þingmönnum Bjarna Benediktssyni og Þorgerði K. Gunnarsdóttur.

Þegar afgreiðslu þeirra er lokið kemur tillaga meiri hluta utanríkismálanefndar til atkvæða breytt eða óbreytt. Loks verða samkvæmt þingsköpum að fara fram atkvæðagreiðslur um fyrirsögn tillögunnar og að síðustu um tillöguna í heild.