137. löggjafarþing — 45. fundur,  16. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:05]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum nú atkvæði um mál sem hefur verið til meðferðar í þinginu í margar vikur og ég vil nota þetta tækifæri til þess að þakka formanni utanríkismálanefndar fyrir hans utanumhald með þeirri vinnu sem hefur verið eftir atvikum ágæt. Niðurstaðan er hins vegar sú að það hefur ekki tekist sú breiða pólitíska samstaða um meðferð málsins sem ríkisstjórnin stefndi að, ríkisstjórn sem er klofin í málinu en hugðist láta á það reyna hvort þingið gæti komið sér saman um það hvernig bæri að bera sig að í þessu stóra máli. Það hefur því miður ekki tekist.

1. minni hluti í utanríkismálanefnd teflir fram tveimur breytingartillögum, nr. 2 og 3 í þessu máli, sem ég hvet þingmenn til að styðja vegna þess að ég hef heyrt það á umræðunni hér í þingsal að það er raunverulegur meiri hluti fyrir því að láta þjóðina eiga fyrsta orðið í þessu máli þar sem engin pólitísk samstaða er um það hvernig standa eigi að því að hefja ferlið. (Forseti hringir.) Jafnvel þótt þingmenn treysti sér ekki til þess að styðja þá tillögu hljóta þeir að geta staðið saman um að þjóðin eigi síðasta orðið í þessu máli og við förum að stjórnarskránni, förum að þeim reglum sem (Forseti hringir.) skrifaðar eru inn í íslensk lög um það hvernig þingið eigi að bera sig að í máli sem þessu. Þjóðin verður að fá að eiga síðasta orðið í málinu.