137. löggjafarþing — 45. fundur,  16. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:29]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Frú forseti. Við greiddum áðan atkvæði um þingsályktunartillögu hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur sem ég studdi og taldi að það væri eðlileg leið fyrir okkur að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Að því frágengnu tel ég að við þurfum að leita annarra leiða og ég treysti ekki því að hæstv. utanríkisráðherra leiði þá umræðu með þeirri tillögu sem hér liggur fyrir til atkvæðagreiðslu á eftir og mun því leggja það til og styðja það að þjóðin fái tækifæri til að taka afstöðu til þess. Þá held ég að við munum m.a. fá meiri tíma til að skoða allar aðrar leiðir sem þessari þjóð bjóðast og það þarf að skoða hvernig við eigum að komast út úr þeirri vandræðastöðu sem við erum í og ég tel að með þeim hætti geti málið líka fengið nægilega góðan undirbúning svo við munum geta tekið upplýsta og góða ákvörðun í kjölfarið, öll þjóðin saman. Ég mun því segja já við þessari tillögu.