137. löggjafarþing — 45. fundur,  16. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:40]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það er mikill ágreiningur um spurninguna um aðildarumsókn að Evrópusambandinu jafnt hjá ríkisstjórninni, hjá þinginu og þjóðinni. Þessi ágreiningur er bæði um efni máls og síðan um aðkomu þjóðarinnar að ákvörðuninni. Umboð stjórnvalda við þessar aðstæður verður að vera skýrt. Þess vegna verðum við að leita sem víðtækastrar samstöðu. Við eigum ekki að óttast að kalla þjóðina til formlegs samráðs. Þingmenn sækja umboð sitt til þjóðarinnar. Forsenda þess að við getum stuðlað að sátt um þetta mikla mál sem nú klýfur þjóðina, þingið og ríkisstjórnina er að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort sækja eigi um aðild að Evrópusambandinu. Ríkisstjórnin vill ekki einu sinni að þjóðin eigi síðasta orðið í þessu máli, hún virðist óttast vilja þjóðarinnar. Það geri ég ekki. Ég segi já.