137. löggjafarþing — 45. fundur,  16. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:41]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við erum hér á sérstökum tímum. Forustumenn ríkisstjórnarinnar eru að leggja það til við þjóðina að hún gangi til samninga við ríkjabandalag sem hefur beitt okkur og eins og sumir segja kúgað okkur til að hlíta afarkostum. Ég tel að svo sé í Icesave-málinu. Ég tel að þetta hljóti að vera einsdæmi í sögunni.

Allir vita sem vilja vita, sama hvaða skoðun menn hafa um aðild Íslands að Evrópusambandinu, það er málefnalegt að hafa mismunandi sjónarmið á því, að við vitum nákvæmlega í hverju það felst. Þeir sem halda því fram að þær upplýsingar liggi ekki fyrir eru ekki læsir. Það er þess vegna ekkert praktískt vandamál við það og gæti verið leið til sátta að láta þjóðina kjósa um það hvort við göngum til samninga við Evrópusambandið. Ég segi já.