137. löggjafarþing — 45. fundur,  16. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:45]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Sú tillaga sem ríkisstjórnin hefur lagt fram hefur að mínu mati einn galla, sérstaklega. Það er ekki tryggt að sé farið til samninga, komi sá samningur síðan til þjóðarinnar til endanlegrar ákvörðunar. Það hefur komið fram af hálfu forustumanna Vinstri grænna í þinginu að ef það er mat þeirra og þeirra sérfræðinga að samningurinn sé ekki góður, þá verði einfaldlega gengið frá samningaborðinu og þjóðin komi ekki að málinu. Ég tel því nauðsynlegt að það sé þjóðin sem ákveði það hvort eigi að fara af stað eða ekki og ef það er niðurstaða þjóðarinnar að leggja af stað, þá eigi að semja og sá samningur komi síðan til þjóðarinnar og það sé þjóðin sem eigi lokaorðið. Þetta er lykilatriði.

Ég vil einnig taka fram að mér finnst furðulegt að heyra það hér hjá mörgum hv. þingmönnum að þetta mál sé þannig vaxið að þjóðin geti ekki tekið upplýsta ákvörðun. Alþingismenn gera sér fulla grein fyrir því að það er munur á því að sækja um aðild og síðan að taka ákvörðun um það hvort menn ganga inn. Þjóðin, hv. þingmenn, gerir sér fulla grein fyrir því líka. Almenningur í landinu skilur muninn á því að sækja um aðild eða ganga inn. Við eigum að treysta þjóðinni. Ég segi já.