137. löggjafarþing — 45. fundur,  16. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:49]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Sú tillaga sem hér er til atkvæðagreiðslu upp borin gengur út á það að það sé þjóðin sem eigi síðasta orðið. Sú hugmynd að það geti verið þannig að ráðgefandi atkvæðagreiðsla bindi þingmenn framar skýrum ákvæðum stjórnarskrárinnar um að það sé samviska þingmannanna sem ráði för gengur auðvitað ekki upp. Og það hefur komið fram hér í þingsal með skýrum hætti að þingmenn, hvorki í stjórnarliði núverandi né í stjórnarandstöðu, eru tilbúnir til að fallast á slíka hugmynd. Ef við þingmenn ætlum að standa við þau orð að við viljum að þjóðin eigi síðasta orðið um þetta mál þá hljótum við að samþykkja þessa tillögu. Öðruvísi er það svo að það er Alþingi sem tekur lokaákvörðunina. Og hinu hafði jú verið lofað. Þingmaðurinn segir já.