137. löggjafarþing — 45. fundur,  16. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[13:06]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Það er mikið leikhús sett á svið hér í dag, mikið leikhús um lýðræðið og rétt þjóðarinnar til að tjá sig um niðurstöðu þessa máls. Það er nauðsynlegt vegna þess að í þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar segir að málsaðilar áskilji sér rétt til að mæla með eða leggjast gegn samningnum. Það er einmitt það sem vinstri grænir ætla að gera þegar samningurinn er kominn. Þeir ætla að nýta sér þennan skriflega rétt sinn í þingsályktunartillögunni til að leggjast gegn samningnum og báðir ríkisstjórnarflokkarnir vita að það er ekki meiri hluti fyrir þeirri niðurstöðu sem þannig fæst. Vegna þess að þeir eru fullkomlega ósammála ætla þeir að losa sig undan þeim vanda sem skrifaður er inn í stjórnarskrána og íslensk lög um að þá skuli breyta stjórnarskrá og kosið og farið eftir réttum leikreglum. Þeir ætla að senda málið frá sér. Þetta er allt gert í þágu ríkisstjórnarsamstarfsins. Vinstri grænir eru búnir að koma hér upp hver á fætur öðrum og lýsa því yfir að þeir muni berjast gegn þessum samningi (Forseti hringir.) og niðurstöðunni, þeir hafa enga sannfæringu í málinu. Þess vegna er kokkuð upp þessi aðferð sem er ekkert annað en það (Forseti hringir.) að fara á svig við stjórnarskrána. Ég segi já.