137. löggjafarþing — 45. fundur,  16. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[13:13]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Samkvæmt stjórnarskrá Íslands sem við hv. þingmenn höfðum svarið eið að má Alþingi ekki afsala sjálfstæði og fullveldi ríkisins. Þessi þingsályktunartillaga er ekki þingtæk að mínu mati og ef hún verður samþykkt og sótt verður um aðild að Evrópusambandinu brýtur það stjórnarskrá Íslands sem ég hef svarið eið að.

Ég trúi því að sjálfstæði Íslands og fullveldi sé ástæðan fyrir því að íslenska þjóðin hefur risið úr öskustónni, úr því að vera ein sú fátækasta í Evrópu eftir 600 ára samband við ríki í Evrópu í það að vera ein sú ríkasta. Ég tel að dofi, framtaksleysi og fólksflótti muni grípa um sig þegar valdamiðja Íslands flyst til Brussel, þrjá flugtíma í burtu, eins og sést hefur víða hér á landi. Evrópusambandið hættir ekki að breytast þegar Ísland er gengið inn. Eftir nokkra áratugi verður Ísland lítill hreppur í risastóru ríki. Af þessum og mörgum öðrum ástæðum segi ég nei við þessari tillögu ríkisstjórnarinnar um að ganga í Evrópusambandið.