137. löggjafarþing — 45. fundur,  16. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[13:18]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegur forseti. Verulega þykk og umfangsmikil greinargerð og á margan hátt vel gerð liggur hér fyrir. Þar skortir þó ýmislegt, m.a. í kafla um landbúnaðarmál ásamt öðrum köflum þar sem mörgum hagsmunum er nánast fórnað og langar mig að nefna að það er svolítið merkilegt í því ljósi að skýrsla sem hér var rædd í gær á marga skírskotun í umfjöllun meiri hlutans og það er nánast samhljóða sem þar stendur en það virðist þó enginn kannast við að hafa séð þá skýrslu.

Í öðru lagi hafnar meiri hlutinn að skilyrði séu sett, skilyrði sem samninganefnd sem fer fyrir hönd Íslands til samninga við Evrópusambandið þyrfti nauðsynlega að hafa með í farteskinu til að verja þá hagsmuni sem við sem þjóð erum ekki tilbúin að gefa afslátt af eða gefa eftir á nokkurn hátt og því segi ég nei.