137. löggjafarþing — 45. fundur,  16. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[13:20]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Umræðan á Íslandi um Evrópusamrunann hefur staðið yfir í næstum því hálfa öld eða frá því að íslenskir jafnaðarmenn hreyfðu þeirri hugmynd í byrjun 7. áratugarins að við ættum að skoða aðild að Efnahagsbandalagi Evrópu. Þessi umræða nær vonandi ákveðnum áfanga í dag með því að við tökum ákvörðun um að stíga fyrsta skrefið á langri leið.

Mig langar að fagna þeirri miklu og vönduðu vinnu sem utanríkismálanefnd þingsins vann í sínu nefndaráliti, bæði þingmönnum stjórnar og stjórnarandstöðu, og set fram þá ósk að þessi samvinna gefi tóninn um áframhaldandi samvinnu um það víðtæka samráðsferli sem þarf að eiga sér stað í framhaldinu við endanlega útfærslu samningsmarkmiðanna og að sjálfsögðu meðan á aðildarviðræðunum stendur. Það er mín sannfæring að umsókn um aðild að Evrópusambandinu gefi mikilvæg fyrirheit um framtíðarstefnu Íslands. Þetta er stórt skref fyrir Ísland í rétta átt, þess vegna segi ég já.