137. löggjafarþing — 45. fundur,  16. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[13:25]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Mín skoðun er sú að hagsmunum íslensku þjóðarinnar sé betur borgið utan Evrópusambandsins en innan. Ég tel því að sú vegferð sem þingið er á í dag, að fara að samþykkja þessa tillögu ríkisstjórnarinnar, sé röng forgangsröðun í fyrsta lagi, röng tímasetning og haldin þeim mikla ágalla að ríkisstjórnarflokkarnir eru alls ekki sammála í þessu máli, ekki sammála um leiðir og annar ríkisstjórnarflokkurinn hefur áskilið sér rétt til þess að berjast gegn þeim aðildarsamningi sem út úr viðræðunum kemur. Þetta er ekki vænlegt til árangurs og þetta er ákveðið villuljós í augum þeirra Íslendinga sem úti á Austurvelli standa og kalla „áfram Ísland“ yfir okkur sem höfum verið hérna inni að ræða um þessa tillögu. Ég segi því nei og ég segi áfram Ísland og við stöndum fyrir utan Evrópusambandið.