137. löggjafarþing — 45. fundur,  16. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[13:43]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það er sagt að ögurstundin sé ótrygg og hún er svo sannarlega runnin upp í dag. Sjaldan ef nokkurn tíma hafa þjóðkjörnir fulltrúar axlað jafnmikla ábyrgð, að svara spurningunni um aðildinni að Evrópusambandinu í skugga Icesave-samningsins og í skugga versta efnahagslega áfalls sem þjóðin hefur tekist á við frá tímum heimskreppunnar miklu.

Virðulegi forseti. Gáum að því að við erum í raun að greiða atkvæði um aðgöngumiða VG að ríkisstjórninni eins og formaður flokksins greindi hér frá á föstudaginn var. Þessi tillaga er afrakstur af hagsmunamati, flokkspólitísku hagsmunamati. Meirihlutaálitið er fullt af óraunhæfri óskhyggju sem allir vita að er ekki í samræmi við veruleikann. Aðildin að Evrópusambandinu er ósamrýmanleg hagsmunum sjávarútvegsins, ósamrýmanleg hagsmunum landbúnaðarins og felur í sér óviðunandi fullveldisafsal og er þess vegna í andstöðu við hagsmuni þjóðarinnar. Höfuðið hefur síðan verið bitið af skömminni með því að meina þjóðinni að hafa síðasta orðið í þessari miklu spurningu. Því segi ég nei.