137. löggjafarþing — 45. fundur,  16. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[13:55]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Helgi Hjörvar sagði að meginhlutverk okkar yrði að endurreisa traust á Íslandi á erlendum vettvangi. Meginhlutverk okkar alþingismanna verður að endurreisa traust fólksins í landinu á lýðveldinu og lýðræðinu. Hæstv. ráðherra Svandís Svavarsdóttir sagði að lýðræðið væri fyrir borð borið í ESB, í Evrópusambandinu. En jafnaðarmannaflokkarnir, vinstri flokkarnir á Alþingi hafa séð til þess að lýðræðið er fyrir borð borið á hinu háa Alþingi. Lýðræðið á Íslandi er fyrir borð borið. Þeim sveið það áðan þegar ég nefndi það í ræðu minni að ég kallaði það nauðgun á lýðræðinu sem hér færi fram. En hvað er þetta annað? Hvað er það annað þegar jafnaðarmannaflokkarnir, jafnaðarmenn og vinstri menn undir forustu þessarar ríkisstjórnar hafa hafnað þeirri lýðræðislegu meðferð þessa máls sem við sjálfstæðismenn lögðum til. Hvað er það annað en nauðgun á lýðræðinu, virðulegi forseti? Ég treysti ekki þessu fólki. Það er alveg morgunljóst að það hefur sýnt þau vinnubrögð (Gripið fram í.) í þessu máli og öðrum (Forseti hringir.) að því er ekki treystandi til að fara með þessi [Háreysti í þingsal.] málefni fyrir okkur og því segi ég nei.

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður um þögn.)