137. löggjafarþing — 45. fundur,  16. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[13:56]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Frú forseti. Sú tillaga sem hér liggur fyrir felur í sér framtíðarsýn. Hún felur í sér viðurkenningu á veruleika dagsins í dag þar sem landamæri eru ekki lokaðir múrar heldur línur sem marka sjálfstæði og sérstöðu. 21. öldin er öld hnattvæðingar og samstarfs þvert á landamæri. Í dag ræðum við samstarf við nágranna okkar sem við eigum margt sameiginlegt með en við erum ekki eins og eigum ekki að verða eins. Við eigum einmitt keik og stolt að marka sérstöðu okkar, standa föst á henni og gefa síðan og þiggja í samstarfi við nágranna okkar. Sem landsbyggðarkona sé ég mikla möguleika fyrir landsbyggðina í Evrópusambandinu. Byggðastefna þess er mun kjötmeiri og fylltari en hinn íslenski mjóslegni vísir að slíkri stefnu. Innan hennar eru möguleikar til atvinnuuppbyggingar í hefðbundnum landbúnaði, í hrossarækt og ferðaþjónustu miklir. Innan hennar sé ég mörg tækifæri fyrir hinar dreifðu byggðir Íslands í atvinnuuppbyggingu. Ekki síst finnst mér sú tilhugsun (Forseti hringir.) að barnabarnið mitt og jafnaldrar hennar geti búið við öruggan gjaldmiðil, þurfi ekki að setja sig á hausinn til að eignast heimili. Þess vegna segi ég já fyrir landsbyggðina og framtíðina.