137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

greiðslur af Icesave-láni.

[10:36]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Mér þykir þetta viðhorf hæstv. forsætisráðherra, og raunar nánast allra ráðherra í ríkisstjórninni, í garð þingsins mjög undarlegt þegar því er stöðugt haldið fram að það sé enginn annar kostur en að samþykkja samninginn. Þingið á sem sagt bara einn kost. Hvert er þá hlutverk þingsins í þessu? Þessi samningur hefur ekki í raun verið gerður fyrr en þingið er búið að staðfesta hann.

Nú er ljóst að þessi samningur er meingallaður. Þá hlýtur að vera eðlilegasti hlutur í heimi að þingið sem hefur eftirlitshlutverki að gegna segi það bara og útskýri um leið að laga þurfi samninginn til að hann sé aðgengilegur. Það hefur reyndar þegar komið í ljós að allar fullyrðingarnar um að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn mundi hætta nánast samskiptum við okkur og að við fengjum engin lán hafa ekki reynst réttar. Fulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefur staðfest að þetta hafi ekkert með afgreiðslu hans að gera.

Telur hæstv. forsætisráðherra að Norðurlöndin viti raunverulega út á hvað þessi samningur gengur? Hæstv. forsætisráðherra upplýsti það sjálfur fyrir ekki svo löngu síðan að ráðherrann vissi það ekki. (Forseti hringir.) Því skyldu Norðurlöndin vita það?