137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

gerð Icesave-samningsins.

[10:39]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Það kom fram í svari hæstv. forsætisráðherra við fyrirspurn hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar að Icesave-málið svokallaða hvíldi þungt á þingmönnum og það væri sjálfsagt að skoða flesta þætti þess til botns. Það er vel og ber að fagna þeirri yfirlýsingu hæstv. forsætisráðherra. Það er vissulega rétt að þar eru mörg stór og mikil álitamál uppi og eitt af því sem hefur verið til umræðu úti í þjóðfélaginu er það sem bar örlítið á góma í skoðanaskiptum þeirra tveggja áðan, tengingin á milli Icesave-málsins og Evrópusambandsins.

Það kom fram í fjölmiðlum um daginn að fyrrverandi utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar taldi einn stærsta gallann á málsmeðferðinni varðandi Icesave þann að horfið hefði verið frá hinum umsömdu viðmiðunum sem samþykkt voru 14. nóvember sl. Að mati fyrrverandi utanríkisráðherra var stærsti gallinn sá að Evrópusambandið hafði ekki komið að samningsgerðinni heldur hafi fyrst og fremst verið um tvíhliða samning að ræða á milli Íslands og Hollands og Bretlands.

Því er mér spurn og ég kalla eftir svörum frá hæstv. forsætisráðherra: Hvers vegna í ósköpunum var fallið frá því skilyrði að draga Evrópusambandið að þessu? Og hvernig í ósköpunum stendur á því að ríkisstjórnin sem tók við framfylgdi ekki því ákvæði sem fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi utanríkisráðherra heldur fram að sé stærsti gallinn á því samkomulag sem hér liggur fyrir?