137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

gerð Icesave-samningsins.

[10:42]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Í sjálfu sér skiptir engu þó að nefndarmenn hafi mikinn áhuga á því að fá að skoða þetta. Svörin við fyrirspurn minni liggja hjá hæstv. ríkisstjórn, hvers vegna ekki var dregið inn í þetta ferli allt saman að Evrópusambandið kæmi að þessu borði. Það er í rauninni á borði hæstv. ríkisstjórnar að svara þessu. Hæstv. forsætisráðherra nefndi að hún áliti að engin tengsl væru á milli Icesave og Evrópusambandsins. Það kann vel að vera að við teljum svo ekki vera en engu að síður er fullkomlega ljóst að ríkisstjórnir annarra landa telja svo vera.

Að þessu gefna tilefni spyr ég því enn og aftur hæstv. forsætisráðherra: Liggur það fyrir að íslenska ríkisstjórnin hafi komið þeim skilaboðum á framfæri við Brussel eða Norðurlöndin að hún telji engin tengsl þar á milli eða hefur íslenska ríkisstjórnin gefið fyrirheit um að Icesave-málið komist út úr Alþingi á einhverjum ákveðnum tímamörkum?