137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

listaverk í eigu gömlu bankanna.

[10:46]
Horfa

menntamálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Það er rétt að vinna hefur staðið yfir af hálfu menntamálaráðuneytisins og Listasafns Íslands við að meta listaverkin og listaverkasöfnin sem voru í eigu bankanna og það liggur fyrir ákveðið bráðabirgðamat á því hvaða listaverk í þessum stóru söfnum má telja þjóðargersemar og má telja eðlilegt að verði í eigu íslenska ríkisins. Það ferli stendur í rauninni enn þá yfir. Þetta bráðabirgðamat liggur fyrir.

Nú er mér kunnugt um að fjármálaráðherra hefur rætt við formenn skilanefnda Glitnis og Kaupþings um að þetta ferli verði til lykta leitt þannig að þau verk sem sérfræðingar Listasafns Íslands og menntamálaráðuneytis telja mikilvægt að lendi í eigu íslenska ríkisins verði þar eða hafni þar. Við munum halda því ferli áfram þrátt fyrir þær breytingar sem verða á eignarhaldi og það er áfram unnið að því samkvæmt samkomulagi fjármálaráðherra við formenn skilanefndanna.

Hvað varðar safnið í Landsbankanum þá heldur þetta áfram á óbreyttri braut þar enda liggja ekki fyrir breytingar á eignarhaldi þar. Ég lít því svo á að við munum fá niðurstöður úr þessu ferli óháð breytingum á eignarhaldi og við munum sjá þessi verk enda í eigu ríkisins.