137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

innstæðutryggingar.

[10:55]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Hæstv. forseti. Að sjálfsögðu er ekki miklu við þetta að bæta. Ég vil bara leggja áherslu á að stærstur hluti innstæðna í landinu er nú í höndum nýju bankanna þriggja sem eru með um a.m.k. 4/5 af innstæðusafninu í landinu og það er að sjálfsögðu verið að búa eins vel um þær og hægt er með því að fjármagna bankana að fullu og vel. Þeir munu fá a.m.k. 12% eiginfjárhlutfall A, vel yfir lágmörkum, og til viðbótar eru lausafjárráðstafanir sem munu tryggja enn frekar stöðu þeirra ef á þarf að halda. Ég tel því að í raun og veru ættum við ekki að þurfa að vera að ræða um það sem einhverja áhættu í hinum nýju og fullfjármögnuðu bönkum að innstæður væru ekki fulltryggðar en ég vil samt segja þetta: Í því ólíklega tilviki að einhvers staðar kæmi upp vandamál af þessu tagi þá stendur ekki til að fara að gera þar mismunun á þeim ráðstöfunum sem þá yrðu gerðar til að koma innstæðum í skjól og því sem gert hefur verið í vetur og vor.