137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

atkvæðagreiðsla um ESB, nefndastörf o.fl.

[11:05]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það er nú undir liðnum um fundarstjórn forseta sem hv. þingmenn geta átt orðastað við hæstv. forseta um það sem varðar störf þingsins, og fundarstjórn þar á meðal, og af því tilefni vil ég spyrja hvort ekki væri tilefni til þess að hæstv. forseti efndi til fleiri hefðbundinna fyrirspurnadaga í þinginu þannig að ekki þurfi að nota óundirbúinn fyrirspurnatíma til að koma á framfæri spurningum sem eru undirbúnar.

En svo ég víki að öðru máli þá kom fram í máli hæstv. forsætisráðherra áðan að nefndir þingsins væru að störfum en hæstv. forseti hefur yfirumsjón með nefndastarfi þingsins, skv. 5. mgr. 8. gr. þingskapa. Ég velti fyrir mér hvort hæstv. forseti getur upplýst hvort það var með vitund hæstv. forseta að mál sem tengjast Icesave voru slitin út úr utanríkismálanefnd (Forseti hringir.) og efnahags- og skattanefnd í gær (Forseti hringir.) þótt augljóst sé að fjárlaganefnd muni lengi verða að störfum (Forseti hringir.) varðandi þau mál.