137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

umræður um fundarstjórn.

[11:33]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það er auðvitað vont að geta ekki átt áfram orðastað um fundarstjórn forseta við þann hæstv. forseta sem sat hér áðan því mér virðist að það sé alveg tilefni til. Ég hef á tilfinningunni að núverandi hæstv. forseti þingsins hafi töluvert aðrar hugmyndir um hvernig túlka eigi ákvæði um fundarstjórn forseta heldur en margir þingmenn a.m.k. og það er umræðuefni út af fyrir sig.

Nú er það auðvitað svo að samkvæmt þingsköpum er það úrskurður forseta sem gildir í ágreiningsmálum sem upp koma varðandi fundarstjórn en ef þingmenn eru ósáttir við úrskurð forseta um að viðkomandi málefni heyri ekki undir fundarstjórn forseta þá hafa þeir sjálfsagðan rétt til að mótmæla þeirri túlkun forseta og koma þeirri skoðun sinni á framfæri. Það er augljóst.

Ég velti því fyrir mér hvort von sé á hæstv. forseta Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur í forsetastól þannig að við getum átt milliliðalaust viðræður við hana um þetta efni?