137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

82. mál
[11:53]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég vil taka undir orð annarra þingmanna og fagna því að verið sé að leggja til þessa breytingu á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Ég vil líka hrósa hæstv. menntamálaráðherra, þetta er mál sem hún hefur barist mjög hatrammlega fyrir og er algjörlega í samræmi við stefnu Vinstri grænna þannig að það er ágætt að einhver af stefnumálum Vinstri grænna koma í gegn í þinginu.

Við framsóknarmenn höfum lagt líka lagt mikla áherslu á þetta atriði og samþykktir liggja fyrir um að gera þessar breytingar í ályktun flokksþings okkar. Ég fagna líka yfirlýsingum hv. þm. Skúla Helgasonar og hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar um að þeir sjái fyrir sér að gerðar verði enn frekari breytingar á lánasjóðnum og tel að dæmi sem voru nefnd séu líka í samræmi við yfirlýsingar hæstv. menntamálaráðherra, eins og fyrirframgreiðslur á lánum. Eitt af því sem við framsóknarmenn höfum rætt mikið á þingum okkar er hvort möguleiki sé á því að hluti af námsláni yrði styrkur. Mér skilst að í Svíþjóð sé um 30% af námslánum styrkur en ekki lán.

Annað atriði sem ég vil gjarnan nefna er hugmynd sem hæstv. forsætisráðherra hefur barist mikið fyrir, þ.e. svokallaður neyslustaðall sem er samræmdur staðall varðandi það sem fólk raunverulega þarf á að halda til þess að lifa af. Hæstv. forsætisráðherra lagði nokkrum sinnum fram tillögu þess efnis að búinn yrði til samræmdur staðall fyrir ríkið sem sjóðir gætu nýtt til þess að ákvarða hversu miklu fólk þarf á að halda. Mig minnir að það hafi verið hæstv. viðskiptaráðherra Jón Sigurðsson sem skipaði nefnd til að athuga hvernig hægt væri að innleiða svona neyslustaðal og var með ákveðnar tillögur tilbúnar þegar hann vék úr því ráðuneyti. Síðan hefur að vísu lítið frést af þessum samræmda neyslustaðli.

Fram kom í fyrri umræðum að áhyggjuefni væri að það skuli „borga sig“ frekar fyrir fólk að vera á atvinnuleysisbótum en að sækja sér menntun af því að það munar allt að 50 þús. kr. á grunnnámsláni og grunnatvinnuleysisbótum. Það virðist ekki vera mikill innbyggður hvati í kerfinu hjá okkur til þess einmitt að sækja sér menntun og verða verðmætari starfskraftur fyrir samfélagið. Ég tel skipta miklu máli að farið verði í þessa vinnu og reynt að samræma enn frekar það sem er borgað út úr hinum ýmsu sjóðum og á vegum Tryggingastofnunar. Ég held að ég hafi orð hæstv. menntamálaráðherra einmitt fyrir því að hún hafi mikinn áhuga á að skoða þetta og þá væntanlega í samstarfi við hæstv. félagsmálaráðherra.

Ég fagna því að verið er að gera þessa breytingu. Fram kemur í nefndaráliti, sem ég skrifa undir ásamt meiri hluta nefndarinnar, að ef stjórnin telur að námsmaður uppfylli ekki skilyrði fyrir að taka námslán án ábyrgðarmanna verður sá möguleiki til staðar að viðkomandi geti fengið námslán gegn tryggingu í formi sjálfskuldarábyrgðar ábyrgðarmanns, veðrétti í fasteign eða bankaábyrgð. Þannig er tryggt að fólk verði ekki útilokað frá því að fá námslán þó að það uppfylli ekki skilyrði sem kannski er eðlilegt að gera, t.d. að fólk sé ekki á vanskilaskrá eða með mikinn skuldahala á eftir sér.

Þetta er gott mál og ánægjulegt fyrir okkur að vera að fjalla um þess konar mál, svona ólíkt því sem við höfum verið að gera hingað til og að í þessu máli skuli stjórnarandstaðan og stjórnarliðar vera sammála.