137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

82. mál
[11:57]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ræddi þetta mál í 1. umr. þannig að ég hef ekki miklu við að bæta en þó. Þannig er að þegar maður tekur lán til annaðhvort fjárfestingar eða neyslu eða til skemmtunar, ferðalaga eða annars slíks, þá finnst mér að hann eigi sjálfur að bera ábyrgð á því. Sá sem lánar honum á að athuga hvort það sem maðurinn ætlar að nota fjármagnið til sé skynsamlegt eða ekki en ekki að velta því yfir á einhvern þriðja aðila.

Hér á landi hefur tíðkast í áratugi, sennilega vegna þess að bankarnir voru ríkisbankar lengi vel, að menn veltu vandanum og ábyrgðinni yfir á þriðja aðila, sem kom viðkomandi fjárfestingu eða neyslu ekkert við og kom heldur ekki bankanum neitt við, hann var ekki endilega í viðskiptum við hann. Þetta er ósiður sem var afnuminn núna í vor með samþykkt frumvarps sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hafði lengi barist fyrir og ég með honum, í átta ár samtals, til að afnema þennan ósið vegna þess að hann hafði í för með sér agaleysi í lánveitingum og agaleysi í lántökum. Aganum var velt yfir á þriðja aðila sem oft gat mjög illa neitað um ábyrgðina.

Það sem við ræðum hérna er lán til menntunar. Menntun er fjárfesting þó að mjög fáir virðist átta sig á því og það er svo merkilegt að menn átta sig ekki á því að stærsti hluti fjárfestingarinnar er ekki skólabækur eða skólagjöld eða laun kennara, sem ríkið borgar, eða byggingin eða slíkt. Langmesti kostnaðurinn er fórnarkostnaður nemandans sem vinnur kauplaust við að læra. Það hleypur á milljörðum á ári þannig að þetta er mjög dýr fjárfesting fyrir þjóðfélagið og einstaklinginn. Það er mikilvægt að í þeirri fjárfestingu sé gætt þess aga sem ég gat um áðan og felst í því að menn beri ábyrgð á henni sjálfir, sá sem tekur lánið og sá sem veitir lánið, þ.e. Lánasjóður íslenskra námsmanna.

Þegar fenginn var ábyrgðarmaður hvarf þessi ábyrgð og miklu meiri lausung var í náminu, miklu meiri lausung í lánveitingunni og miklu minni agi í öllu kerfinu. Ég held að þessi breyting sem við ræðum sé mjög til bóta og muni gera að verkum að námsmenn verði agaðir, þeir átti sig á því að þeir skulda þessa upphæð sjálfir. Lánasjóðurinn verður líka agaðri því að hann veit að hann þarf að kanna námið mikið betur, hvað maðurinn er að fara út í og lánasjóðurinn þarf að gæta þess að maðurinn standi sig í námi þannig að fjárfestingin borgi sig. Fjárfestingin er að sjálfsögðu fyrst og fremst fyrir einstaklinginn, hann er að fjárfesta í því að bæta sína eigin stöðu í lífinu, hann getur sótt um betri störf og hann nýtur meiri virðingar, en þetta er líka fjárfesting fyrir þjóðfélagið. Þetta er ekkert síðri fjárfesting en að byggja álver eða byggja skip til að veiða þorsk eða annað slíkt eða að byggja vegi. Þetta er fjárfesting fyrir þjóðfélagið og þess vegna finnst mér mjög skynsamlegt að það séu lánasjóðurinn og námsmaðurinn einir sem beri ábyrgð á því að fjárfestingin sé skynsamleg.

Svo vil ég ekki fara aftur að endurtaka þá harmleiki sem mjög margir hafa kynnst í fjölskyldum þar sem fólk hefur skrifað upp á lán og neyðist svo til að borga skuldir af lánum sem það eyddi aldrei sjálft, það er mjög biturt og mjög sorglegt. Það er annað að borga lán sem ég tók til að eyða sjálfur, keypti mér bíl og svo er hann farinn og ég borga lánið, það er allt annað en að borga af láni sem ég eyddi aldrei sjálfur, hvorki í menntun né í annað. Við erum hér að koma í veg fyrir þá harmleiki sem eru mjög víða, sérstaklega þegar fólk á kannski erfitt með að borga af láninu og missir húsið sitt og annað slíkt sem mörg dæmi eru um.

Ég er því mjög sáttur við þessa tillögu og líka þá breytingartillögu sem lögð er hér til á þessu til að bæta úr tæknilegum göllum og lýsi því yfir að ég mun styðja þetta frumvarp.