137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

embætti sérstaks saksóknara og rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

138. mál
[12:25]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég á sæti í allsherjarnefnd og skrifaði undir nefndarálitið sem hv. formaður nefndarinnar gerði grein fyrir áðan og styð breytingartillögur sem þar koma fram og ætla ekki að hafa mörg orð um þann þátt. Ég vildi aðeins bæta við þá upprifjun sem hér hefur komið fram varðandi tilkomu þessa máls.

Eins og hv. þm. Pétur Blöndal vék hér að, varð í kjölfar bankahrunsins um það samstaða að annars vegar þyrfti að bregðast sérstaklega við til að upplýsa orsakir bankahrunsins og þeirra efnahagslegu hörmunga sem því fylgdu og hins vegar þyrfti að skoða sakamálaþáttinn sérstaklega. Eins og hv. þingmaður gat um var annars vegar sett á fót embætti sérstaks saksóknara til að hafa með höndum rannsókn og saksókn í hugsanlegum sakamálum sem upp gætu komið og hins vegar rannsóknarnefnd Alþingis sem hefur það hlutverk að greina og upplýsa orsakir þessara atburða og gera sem vandaðasta greinargerð um orsakirnar sem lágu að baki, lagalega þætti, ákvarðanir stofnana og einstaklinga og annað sem máli skiptir og þetta hvort tveggja er komið vel á veg. Segja má að enn þá betra hefði verið ef störf rannsóknarnefndar og sérstaks saksóknara hefðu farið af stað fyrr, en það á sér skýringar að tíma tók að koma hlutunum í þann farveg sem þeir eru.

Frumvarpið sem við erum að ræða er í rauninni framhald af málinu um sérstakan saksóknara frá síðasta hausti og felur í sér eflingu embættisins og styrkingu og er þar af leiðandi bæði mikilvægt mál og brýnt.

Ég vildi geta þess, af því að ég átti sæti í allsherjarnefnd sem fjallaði um málið á síðasta hausti, að við gerðum okkur auðvitað grein fyrir því þegar við vorum að afgreiða það frumvarp að margir óvissuþættir væru uppi sem kynnu að kalla á breytingar síðar. T.d. tókum við skýrt fram í nefndaráliti að ekki væri bara mögulegt heldur jafnvel líklegt að sú rannsókn eða þær rannsóknir sem þarna væri fjallað um mundu kalla á meira fjármagn en gert var ráð fyrir í forsendum frumvarpsins og það hefur sannarlega komið á daginn. Þegar hefur ríkisstjórnin að frumkvæði dómsmálaráðherra ákveðið aukafjárveitingar til embættisins og þetta frumvarp kallar auðvitað á aukin framlög líka. Það er í samræmi við það sem við gerðum ráð fyrir á síðasta hausti þó að mér sé óhætt að segja að þörfin sé jafnvel enn þá meiri en við gerðum okkur grein fyrir. Menn tóku ákvarðanir í hálfgerðri þoku á síðasta hausti í mörgum efnum, urðu að átta sig á því og taka ákvarðanir með fyrirvörum af þeim sökum. Hlutirnir hafa verið að skýrast og svo virðist sem þörfin sé miklu meiri en fyrirsjáanlegt var á síðasta hausti, bæði hvað varðar umfang og fjölda þeirra mála sem þarf að rannsaka. Þess vegna er fagnaðarefni að góð samstaða er í þinginu um að tryggja þessu máli framkvæmd. Þetta er partur af dæminu. Verið er að efla embættið og lagfæra ýmis atriði sem menn töldu að gætu hugsanlega staðið starfsemi þess fyrir þrifum, lagfæra ákveðna þætti af ástæðum sem öllum eru kunnir og ég er sannfærður um að verði þetta frumvarp að lögum stöndum við betur að vígi en áður.

Ég legg mikla áherslu á að þetta mál fái hraðan framgang. Þess vegna hef ég stutt innan allsherjarnefndar að málið fengi fremur hraða afgreiðslu þó að vissulega væri reynt að velta við svo til hverjum steini. Nefndin reyndi að sjálfsögðu að vanda sig en hins vegar var um það samstaða líka að hraða málinu þannig að hægt væri að fara að vinna eftir því nýja kerfi sem þarna er gert ráð fyrir. Ég dreg enga dul á að ég held að það sé afskaplega mikilvægt vegna þess, eins og hv. þm. Pétur Blöndal kom vel inn á áðan, að hagsmunirnir af því að leiða til lykta lagalegan ágreining og grun um refsivert athæfi eru gríðarlega miklir og mikilvægir. Þess vegna er það von mín að þetta mál fái skjóta framgöngu í þinginu og samstaðan um það verði jafngóð og verið hefur þannig að hægt verði að fara að vinna eftir kerfinu sem þarna er gert ráð fyrir.

Í þessari umræðu vildi ég hins vegar nefna nokkur atriði sem ég tel að við þurfum að leiða hugann að varðandi framhaldið. Vikið er að því í nefndaráliti allsherjarnefndar en það eru ákveðnar spurningar sem við þurfum að velta fyrir okkur varðandi fyrirkomulag þessara mála. Allir eru sammála um að við erum að fást við afbrigðilegt ástand. Skyndilega hellist yfir mikill fjöldi mála sem þarf að vinna í og afgreiða, þau krefjast mikillar vinnu, mikils mannskaps, meiri aðkeyptrar sérfræðiþjónustu en ella o.s.frv. Við verðum í afbrigðilegu ástandi um einhverra missira skeið, enginn sagt með vissu hversu lengi en við verðum að velta fyrir okkur hvernig við viljum móta framtíðarfyrirkomulag rannsóknar- og ákæruvalds í efnahagsbrotamálum. Við komumst að ákveðinni niðurstöðu þegar sakamálafrumvarpið var afgreitt á sínum tíma en þó voru einhver álitamál uppi sem eftir er að útkljá. Þetta er þáttur sem er allt í lagi fyrir okkur að leiða hugann að þótt við þurfum ekki að komast að niðurstöðu. Kannski er ekki skynsamlegt að komast að niðurstöðu fyrr en við sjáum aðeins betur hvernig þeim málum vindur fram sem nú eru í gangi.

Við meðferð þessa máls kom upp spurning um aðgreiningu lögregluvalds og ákæruvalds. Tekið er á henni með sérstökum hætti í frumvarpinu og við þurfum að velta fyrir okkur hvernig við viljum hafa þau mál í framtíðinni, hvort við viljum hafa stjórn lögreglumála og stjórn ákæru á hendi sömu embætta eða að í meginatriðum sé aðskilnaður þar á milli. Við þurfum að velta þessu fyrir okkur, ekki bara í efnahagsbrotamálunum heldur almennt. Í þessu sambandi þarf að skoða ákvæði sakamálalaganna og lögreglulög og hvernig þeim málum er fyrir komið. Um leið held ég að hollt sé fyrir okkur að huga að málunum í stærra samhengi, það varðar rannsóknir sem fara fram á vegum sérstakra eftirlitsstofnana stjórnvalda og þá nefni ég Fjármálaeftirlitið, Samkeppniseftirlitið og fleiri stofnanir. Ég kasta þessu fram vegna þess að þær hafa mesta samsvörun við þessi mál sem við erum að ræða, jafnvel mætti nefna rannsóknaþátt skattamála í því samhengi líka. Við þurfum að velta fyrir okkur hvernig við viljum greina á milli annars vegar rannsókna á vegum eftirlitsaðila innan stjórnkerfisins, sem lúta sérstökum reglum, og rannsókna sem fara fram á vegum lögreglu og ákæruvalds og lúta öðrum reglum, af því að þarna verða árekstrar á milli.

Þessi mál hafa áður verið til umræðu. Ég hygg að það hafi verið árið 2006 sem nefnd á vegum þáverandi forsætisráðherra skilaði af sér mjög viðamikilli skýrslu um þessi mál þar sem byggt var á tilteknum niðurstöðum. Mörgum þeirra niðurstaðna var fylgt eftir með lagabreytingum en ég held að við komumst ekki hjá því, í ljósi bankahrunsins og þeirra rannsókna sem nú eiga sér stað, að huga að því hvernig við viljum haga þessum málum til framtíðar. Þar held ég að við verðum að vera krítísk, læra af reynslunni og vera tilbúin til að gera breytingar í ljósi þess sem við lærum af þeim atburðum sem nú eiga sér stað.

Að lokum vildi ég nefna að með þeim lögum sem voru samþykkt um sérstakan saksóknara sl. haust og þeim breytingum sem við erum núna að leggja til að verði afgreiddar frá þinginu, og raunar með auknum fjárheimildum, er vonandi sá þáttur mála sem lýtur að rannsókn og ákæruvaldsmeðferðinni kominn í gott horf varðandi þetta. En ég vildi vekja á því athygli, án þess að hafa á þessu stigi neinar sérstakar tillögur um það, að fyrr eða síðar fara þessi mál til dómstóla. Ég velti því fyrir mér hvort við þurfum ekki líka á þingi að huga að dómstólaþættinum, sérstaklega ef við sjáum fram á að hjá dómstólum muni lenda mikill fjöldi umfangsmikilla mála á þessu sviði. Við þurfum að velta fyrir okkur með góðum fyrirvara hvernig við ætlum að bregðast við því, meta hvort dómstólarnir séu tilbúnir að taka við slíkum málafjölda, hvað varðar umfang, efni og annað þess háttar og hvort þeir munu einfaldlega ráða við að afgreiða holskeflu flókinna erfiðra mála af þessu tagi á skikkanlegum tíma. Við höfum séð á undanförnum árum að viðamikil efnahagsbrotamál hafa tekið gríðarlega langan tíma hjá dómstólum. Reynslan er sú að sakborningar í slíkum málum nota hvert tækifæri til að verja sig, eins og kannski eðlilegt er, en spara ekkert til þess að halda uppi vörnum á hvaða stigi sem er, kæra allar ákvarðanir og búa sér til eins margar lagalegar varnarlínur og hægt er. Að auki eru málin sjálf viðamikil og flókin og augljóst að það er meira en segja það fyrir dómstólana að taka við mörgum, hugsanlega tugum slíkra mála á sama tíma og afgreiða þau á skikkanlegum tíma.

Ég vildi nefna að mér finnst mikilvægt að við í þinginu, innan allsherjarnefndar og í samstarfi við dómsmálaráðuneytið, reynum að sjá fyrir okkur hvað við getum gert til að bregðast við að þessu leyti því það væri ekki góð staða ef við næðum árangri í sambandi við rannsókn og ákærustigið á þessu sviði en lentum í stíflu þegar málin eiga að fá dómsmeðferð. Það skiptir máli frá sjónarhóli ákæruvaldsins, sjónarhóli sakborninga og ekki síst sjónarhóli almennings að málin fái vandaða meðferð fyrir dómstólum, annars vegar eðlilegan og góðan málshraða og hins vegar að öllum skilyrðum og sjónarmiðum réttarríkisins sé haldið til haga og þeirra gætt.

Þetta vildi ég nefna við þessa umræðu, hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta mál lengra en ítreka það sem ég sagði í upphafi að ég styð þær breytingar sem hér er lagt upp með. Þó það sé ekki partur af þessu frumvarpi sem slíku styð ég líka að varið verði nauðsynlegu fjármagni til þeirra embætta og þeirrar starfsemi sem hér um ræðir og er sammála hv. þm. Pétri Blöndal um að það má ekkert til spara til að réttlætið nái fram að ganga á þessu sviði og að allir sjái réttlætið ná fram að ganga.