137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

embætti sérstaks saksóknara og rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

138. mál
[12:49]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hygg að allir þingmenn hér inni deili þessum áhyggjum. Það er, að ég hygg, orðin staðreynd að afbrot hafa aukist í kjölfar kreppunnar og við verðum auðvitað að huga að öllum afleiðingum hennar. Einnig er afar brýnt, eins og ég hef kannski nefnt áður í þessum málaflokki varðandi fé til löggæslumála, að við þurfum ekki bara að láta þá sem brotlegir eru í þessum efnahagsbrotum sæta ábyrgð heldur er jafnbrýnt að ná til þeirra fjármuna sem þeir hafa náð undir sig með ólögmætum hætti.

Ég vil síðan nefna varðandi hina almennu löggæslu að innan úr lögreglunni hafa komið hugmyndir um skipulagsbreytingar sem eru að mínu mati til þess fallnar að styrkja hina almennu löggæslu. Ég hef séð slíkar tillögur sem ég get stutt en burt séð frá því hygg ég að það verði að auka fjárveitingar til hinnar almennu löggæslu, til grenndargæslunnar.