137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

embætti sérstaks saksóknara og rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

138. mál
[12:54]
Horfa

Frsm. allshn. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka þeim hv. þingmönnum sem til máls hafa tekið í þessari umræðu fyrir málefnalegar ræður og að hafa komið inn á margt fróðlegt og merkilegt. Aðalatriði þessa máls er auðvitað, eins og hefur komið fram, að verið er að styrkja embætti sérstaks saksóknara með því að setja inn þrjá sjálfstæða saksóknara. Þetta er afar mikilvægt mál og í anda þeirrar þverpólitísku samstöðu sem ekki er bara í allsherjarnefnd heldur líka hér á hinu háa Alþingi um mikilvægi þess að styrkja þetta embætti.

Ég vil koma inn á nokkur efnisatriði sem hafa verið nefnd í þessari umræðu. Í fyrsta lagi kom hv. þm. Pétur Blöndal hingað upp og velti fyrir sér og viðraði efasemdir um að það væri rétt að hinn sérstaki saksóknari hefði heimild til þess að taka til baka mál sem hann hefði úthlutað til hinna þriggja saksóknaranna. Því er til að svara að í frumvarpinu sjálfu er gert ráð fyrir að þetta eigi eingöngu við ef um er að ræða veikindi saksóknara, tímabundið orlofs, svo sem fæðingarorlof eða þess háttar. Ekki er gert ráð fyrir að almenna reglan sé sú að hinn sérstaki saksóknari geti afturkallað mál sem hann hefur úthlutað til hinna þriggja saksóknaranna því að það skiptir auðvitað afar miklu máli og er hlutverk hins sérstaka saksóknara að gæta samræmis í störfum embættisins og að eins sé farið með öll mál.

Hv. þm. Birgir Ármannsson var með prýðilegar vangaveltur um framtíðarfyrirkomulag ýmissa mála sem lúta að efnahagsbrotum, lögregluvaldi, ákæruvaldi o.s.frv. og hægt er að taka undir margt af því sem hv. þingmaður kom inn á. Það sem ég vildi nefna hér og hef verið sérstaklega hugsi yfir eftir hrunið sl. haust er aðkoma þessara sérstöku eftirlitsstofnana ríkisins eða stjórnvalda, t.d. Fjármálaeftirlits, Samkeppniseftirlits og ef út í það er farið skattyfirvalda — hvernig hlutverk þeirra er í samhengi við lögreglu, efnahagsbrotadeild o.s.frv. Ég held að það sé orðið afar brýnt að valdheimildir þessara aðila séu skýrðar betur og jafnvel verkaskipting líka vegna þess að mér skilst, svo lítið dæmi sé tekið, að ef rannsóknarnefnd Alþingis, sem er að störfum núna, rekst í störfum sínum á mál sem hún hefur athugasemdir við vísar hún því til Fjármálaeftirlits. Fjármálaeftirlitið fer yfir það mál og vísar því, ef efni standa til, áfram til lögreglu. Það er umhugsunarefni hvort þetta fyrirkomulag sé rétt og nógu skilvirkt við þær aðstæður sem eru í samfélaginu núna. Mér finnst full ástæða til þess að skoða þetta.

Ég vil líka taka undir það sem hv. þm. Birgir Ármannsson og Atli Gíslason gerðu að umtalsefni og lýtur að dómstólum. Ég tel það afar brýnt og held að það hljóti að verða verkefni okkar á allra næstu vikum og mánuðum að sjá fyrir okkur endastöðina, endapunktinn. Hvað muni gerast hjá dómstólum landsins þegar búið verður að ljúka rannsókn á þeim málum sem núna eru í rannsókn, koma þeim til ákæruvaldsins og á endanum til dómstóla. Að það verði tryggt að dómstólarnir hafi þá yfir nægum mannafla að ráða til að málin taki ekki allt of langan tíma en verði leidd til lykta á sem skemmstum tíma. Ég held að það skipti líka almenning í landinu mjög miklu máli að dómstólarnir séu efldir. Þess vegna vil ég taka undir þau sjónarmið sem hér voru nefnd um styrkingu á dómstólunum.

Hv. þm. Atli Gíslason nefndi einnig fjölgun afbrota, til að mynda í Finnlandi í kjölfar þeirrar kreppu sem þar ríkti. Mér sýnist að miðað við þær fréttir sem við fáum núna úr íslensku samfélagi — það er hægt að orða það þannig að ýmis teikn séu á lofti um að við séum ekki í ósvipuðum aðstæðum og Finnar lentu í á sínum tíma. Þá skiptir aðbúnaður hinnar almennu lögreglu mjög miklu máli. Núna síðustu daga, frú forseti, hafa borist fréttir af bréfum og skrifum einstakra lögreglumanna um aðbúnað lögreglunnar, sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu, um skort á mannafla og fjármunum. Ég tel að Alþingi eigi að taka þetta mjög alvarlega. Þetta mál var m.a. rætt í hv. allsherjarnefnd í morgun og ákveðið þar að nefndin mundi hitta dómsmálaráðherra og ráðuneytisfólk auk lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu til þess að fara yfir þetta mál. Ég tel algjörlega einsýnt að hér verður að koma til ekki bara aukning á fjármunum til lögreglunnar heldur ekki síður styrking á lögreglunni og skipan lögreglumála í landinu.

Sjálf hef ég á öðrum vettvangi haft sterkar skoðanir á skipan lögreglumála, sérstaklega varðandi hverfalöggæslu og almennu löggæsluna. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að hverfalöggæslan og hluti af hinni almennu löggæslu, sem í eðli sínu er nærþjónusta, eigi betur heima hjá sveitarfélögum en ríkinu. Ég hef talað fyrir þeim sjónarmiðum á öðrum vettvangi í mörg ár en reyndar mætt litlum skilningi af hálfu dómsmálayfirvalda. Menn hafa rætt um að það mundi flækja skipan lögreglumála að skipta lögregluliði upp o.s.frv. Hins vegar er staðreyndin sú að þetta fyrirkomulag er þekkt víða um heim og þar sem hverfislöggæsla og grenndarlöggæsla hefur verið reynd, til að mynda hér í höfuðborginni, hefur hún gefist afskaplega vel. Þetta er fyrirbyggjandi starfsemi þar sem lögreglumennirnir í hverfunum sjálfum mynda tengsl við íbúana, hafa yfirsýn yfir hvað er að gerast og geta þannig í mörgum tilfellum komið í veg fyrir minni háttar afbrot. Þessi umræða er ekki beinlínis tengd þessu frumvarpi en tveir hv. þingmenn komu inn á þetta hér áðan og þess vegna vildi ég bregðast við og taka undir þau sjónarmið að við þessar aðstæður beri að styrkja lögregluna.

Ég vil að lokum þakka öllum þeim sem hafa tekið til máls í þessari umræðu fyrir málefnalegar ræður og nefndinni fyrir afar gott samstarf og samhug í þessu verkefni. Ég vil einnig taka undir að nefndin var samstiga um að flýta málinu og vinna það hratt og örugglega og ég vonast til þess nú að lokinni þessari umræðu að málið geti komið til atkvæðagreiðslu hér í þinginu við allra fyrsta tækifæri.