137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

Ríkisútvarpið ohf.

134. mál
[14:02]
Horfa

Frsm. menntmn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá menntamálanefnd um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 6/2007, um Ríkisútvarpið ohf., með síðari breytingum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þórhall Vilhjálmsson og Auði B. Árnadóttur frá menntamálaráðuneyti, Ástu Garðarsdóttur og Guðjón Á. Ríkharðsson frá Fjársýslu ríkisins, Skúla Eggert Þórðarson og Ingvar J. Rögnvaldsson frá ríkisskattstjóra, Daða Sverrisson frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Ástrúnu Björk Ágústsdóttur frá Íslandsbanka og Grétu Berg Ingólfsdóttur og Jón Örn Guðmundsson frá Landsbankanum. Umsagnir bárust frá Ríkisútvarpinu ohf. og ríkisskattstjóra.

Með frumvarpinu er lagt til að gjalddögum útvarpsgjalds fjölgi úr einum í þrjá hjá einstaklingum en hjá lögaðilum verði einn gjalddagi. Gert er ráð fyrir að gjalddagar hjá einstaklingum verði 1. ágúst, 1. október og 1. desember en 1. nóvember hjá lögaðilum. Markmiðið með þessari breytingu er að skapa fjárhagslegt hagræði fyrir einstaklinga með dreifingu á greiðslu útvarpsgjaldsins.

Í kostnaðarumsögn frá fjárlagaskrifstofu kemur fram að áætlað er að útgjöld ríkissjóðs gætu aukist um 9 millj. kr. með auknum fjölda útsendra innheimtuseðla og að þessi viðbótarútgjöld muni falla til hjá Fjársýslu ríkisins sem heyrir undir fjármálaráðuneytið.

Á fundi með nefndinni kom fram hjá fulltrúum frá Fjársýslu ríkisins að fyrirkomulag á innheimtu gjaldsins sé með þeim hætti að þeir greiðendur sem ekki eru launagreiðendamerktir í kerfi hennar fái senda sérstaka greiðsluseðla. Fjölgun gjalddaga úr einum í þrjá mun því hafa í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð þar eð greiðsluseðlum, sem sendir eru gjaldendum sem ekki eru launagreiðendamerktir hjá innheimtumönnum ríkissjóðs, muni fjölga.

Í frumvarpinu er eins og áður segir gert ráð fyrir að gjalddagar hjá einstaklingum verði 1. ágúst, 1. október og 1. desember. Fram kom hjá Fjársýslu ríkisins að ef gjalddagaskiptingin er miðuð við þá gjalddaga hefur það í för með sér kostnaðarauka sem nemur u.þ.b. 11,5 millj. kr. Sé gjalddagaskiptingin hins vegar ákvörðuð 1. ágúst, 1. september og 1. október mun kostnaður lækka um u.þ.b. 4 millj. kr. og verða 7,5 millj. kr. Útvarpsgjaldið fari á greiðsluseðil með eftirstöðvum gjalda til innheimtu eftir álagningu og skýringin á kostnaðarlækkuninni sé sú að eftirstöðvum gjalda við álagningu er skipt á fimm gjalddaga en þó sé miðað við að ekki sé til innheimtu lægri fjárhæð en 2.000 kr. á hverjum gjalddaga, sbr. 112. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, þannig að útsendum greiðsluseðlum fækkar eftir því sem líða tekur á árið. Fram kom að í fyrra voru sendir út 42.000 greiðsluseðlar 1. ágúst en 1. desember 15.000. Þá kom fram hjá Fjársýslunni að misræmi milli kostnaðarmats hennar og fjárlagaskrifstofu helgist af óvissu um hversu margir greiðendur eru ekki launamerktir. Í upphafi var talið að þeir væru mun fleiri en áætlað var en nú sé jafnvel gert ráð fyrir að þeir séu mun færri.

Nefndin telur mikilvægt með hliðsjón af stöðu ríkissjóðs, og í ljósi þess að fjárlög ársins 2010 munu innihalda mikinn niðurskurð á öllum sviðum, að nauðsynlegt sé að leita leiða sem hafa í för með sér hagræðingu eða sparnað. Nefndin leggur því til þá breytingu að gjalddagar verði miðaðir við 1. ágúst, 1. september og 1. október. Nefndin bendir á að bankar bjóði upp á þann greiðslumöguleika að þeir aðilar sem eru í greiðsludreifingu geti dreift greiðslunni á lengra tímabil. Með vísan til þessa telur nefndin að breytingin hafi í för með sér bæði sparnað fyrir ríkissjóð og nái því markmiði sem upphaflega var stefnt að með frumvarpinu, að veita gjaldendum aukið hagræði við greiðslu útvarpsgjalds.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

Í stað orðanna „1. október og 1. desember“ í 1. gr. komi: 1. september og 1. október.

Hv. þingmenn Ásmundur Einar Daðason, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Margrét Tryggvadóttir og Ragnheiður Ríkharðsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Eftirfarandi hv. þingmenn skrifa undir nefndarálitið: Oddný G. Harðardóttir, Eygló Harðardóttir, Árni Þór Sigurðsson, Skúli Helgason og Unnur Brá Konráðsdóttir.