137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

Ríkisútvarpið ohf.

134. mál
[14:08]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Þegar ákveðið var að fara frá því kerfi sem var við lýði um innheimtu útvarpsgjalds þar sem það var lagt á og innheimt gegnum mjög dýrt kerfi sem var auk þess ekki mjög skilvirkt því talið var að stór hluti notenda greiddi ekki þó þeir notuðu sér þjónustu Ríkisútvarpsins, þá gerðu menn veigamikil mistök að mínu mati. Þeir ákváðu að leggja á sérstakt útvarpsgjald í staðinn fyrir að lækka persónuafsláttinn í skattkerfinu og færa hluta af þeim persónuafslætti sem útvarpsgjald. Það virkar nákvæmlega eins fyrir velflesta, er réttlátara fyrir þá sem eru á mörkunum vegna þess að nú er það þannig að ef tekjur manna hækka um eina krónu og þeir fara upp fyrir skattleysismörkin þá borga þeir í fyrsta lagi útvarpsgjald sem er umtalsverð upphæð og gjald til aldraðra einnig þannig að ein króna getur valdið því að menn borga eitthvað um 25 þús. kr. í heildina í þessa tvo skatta. Þetta eru nefskattar sem eru mjög ófélagslegir sem kunnugt er þar sem menn borga þá án tillits til tekna. Mér fannst vera mjög eðlilegt að menn notuðu tækifærið og tækju þann skatt sem er neikvæður nefskattur, sem er persónuafslátturinn, og bara hreinlega lækkuðu hann á móti báðum þessum gjöldum. Það hefði mátt hafa það í kerfinu sérmerkt að þessi stóri hluti af persónuafslættinum sé vegna útvarpsgjalds og annar hluti vegna gjalds í Framkvæmdarsjóð aldraðra. Þá liggur það alveg fyrir og það hefði alveg mátt gefa það upp í yfirliti eftir áramót að menn hafi borgað þetta og þetta mikið í þessi gjöld. Nei, menn ákváðu að fara þá leið að vera með sérstakt gjald með sérstöku innheimtukerfi, með sérstöku kerfi í kringum þetta og þá kom í ljós að fólk átti erfitt með að borga þetta allt í einum gjalddaga. Menn fóru að fjölga gjalddögunum upp í tíu og nú er verið að breyta því, það er aftur verið að breyta því og ég mundi segja að þetta væri allt meira og minna rugl vegna þess að til er afskaplega einföld leið til að gera þetta. Ég sé ekki að hv. menntamálanefnd hafi nokkurn skapaðan hlut fjallað um það að setja þetta inn í skattkerfið. Við erum með ýmis gjöld í skattkerfinu. Ég vil minna á barnabætur, sjómannaafslátt, vaxtabætur. Það eru sem sagt þrjú bótakerfi inni í tekjuskattslögunum. Það þykir mér öllu verra. En um þessa innheimtu sem er í rauninni skattur eru sett sérlög. Hér er verið að breyta því og flytja fram og til baka.

Það er ekki hægt að tala um þetta gjald án þess að tala um gjaldið sem var lagt á fyrirtæki. Nú er það svo að fyrirtæki hlusta ekki á útvarp og horfa ekki á sjónvarp. Ég hef aldrei séð trillu hlusta á útvarp eða horfa á sjónvarp. Í því tilfelli er því ekki um að ræða þjónustugjald. Það er hreinn og klár skattur á atvinnulífið í landinu. Núna mun koma í ljós að það kostar 19 þús. kr., eða hvað gjaldið er, að reka eitt stykki fyrirtæki á Íslandi. Þá eiga menn að kalla það það, frú forseti, og segja bara að þetta sé tilvistargjald eða lífsgjald eða hvað á að kalla það sem fyrirtæki borgar fyrir að vera á lífi og fá að vera virkt í kerfinu, en ekki kalla það útvarpsgjald því í því liggur að fyrirtæki séu einhvern veginn að hlusta á útvarp og horfa á sjónvarp. Sumir hafa sagt að það sé eðlilegt að fyrirtæki, til dæmis rakarastofur og slíkir borgi útvarpsgjald af því að útvarpið sé í gangi og svona. En það vill svo til að fólkið sem hlustar á útvarpið á rakarastofunni er allt saman búið að borga útvarpsgjald heima hjá sér. Það er búið að borga fyrir þessa notkun þannig að þetta er mjög skrýtin skattlagning og ég gagnrýndi hana mikið á sínum tíma og gagnrýni hana ekki minna núna. Ég er nærri viss um að það eiga eftir að koma upp einhver jafnvel málaferli þar sem menn munu kæra það að fyrirtæki þar sem ekki einu sinni er starfsmaður, þ.e. fyrirtæki sem er bara með rekstur og ekki með starfsmann eða neitt er að borga útvarpsgjald og það liggur í orðinu að það sé eitthvað tengt útvarpi, þetta getur jafnvel verið skip á hafi úti sem nær ekki í útvarp eða inni í afdölum. Mér finnst þetta vera mjög slæmt.

Mér finnst sérstaklega slæmt að hv. menntamálanefnd hafi ekki munað eftir umræðum þegar þetta gjald var sett á og ekki munað eftir þeirri einföldu lausn sem fólst í því hreinlega að lækka persónuafsláttinn um þetta gjald, lækka gjaldið í Framkvæmdarsjóð aldraðra um þetta gjald og við erum komin með afskaplega einfalt kerfi sem kostar ekki neitt í rekstri, ekki krónu því það er innbyggt inn í skattkerfið. Það hefði mátt prenta eina línu á álagningarseðla og segja fólki að það sé búið að borga þetta útvarpsgjald þar.