137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

Ríkisútvarpið ohf.

134. mál
[14:16]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er kannski ástæða til þess að fara að breyta nafninu á þessu, í staðinn fyrir að tala alltaf um andsvar getum við kallað þetta and- og meðsvör.

Hins vegar var fór ég að velta því fyrir mér í framhaldi af ræðu þingmannsins að segja má að þetta mál falli ekki undir það sem við fjöllum almennt um í menntamálanefnd. Þetta er fyrirkomulag sem ætti mun frekar heima innan efnahags- og skattanefndar sem hv. þingmaður situr í og sérstaklega þessar athugasemdir sem hafa komið frá honum. Ég skrifa undir nefndarálitið og vil benda á að þó að talað sé um ákveðinn kostnaðarauka við þessar breytingar er samt sem áður sparað í heildina miðað við hvernig fyrirkomulagið hefur verið á gjaldinu eða skattlagningunni, hvort sem við viljum kalla það. Í kostnaðarumsögn með frumvarpinu kemur fram að útgjöld geti hugsanlega aukist um 9 millj. kr. við þessa breytingu en mér skilst að miðað við hvernig innheimt var áður hafi kostnaðurinn verið einhver hundruð milljóna.

Hins vegar eru mjög áhugaverðar vangaveltur og ábendingar hjá þingmanninum, sem virðast hafa verið ræddar áður innan efnahags- og skattanefndar og hérna í þinginu, um hvort hægt væri að samnýta það skattakerfi sem er þegar til staðar. Þess vegna spyr maður enn á ný hvort þetta mál hefði ekki frekar átt heima undir efnahags- og skattanefnd og meðhöndlun hjá henni frekar en hjá okkur sem erum frekar sérfræðingar í mennta- og menningarmálum.