137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

Ríkisútvarpið ohf.

134. mál
[14:24]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér um breytingar á innheimtu útvarpsgjaldsins svokallaða sem er í rauninni skattur. Menntamálanefnd hefur fjallað um málið og ágætissamstarf hefur verið í nefndinni um það enda svo sem ekki margt annað sem nefndin er að sýsla þessa dagana á sumarþinginu. Uppleggið með þessu máli er að lagt er til að gjalddögum útvarpsgjalds verði fjölgað úr einum í þrjá hjá einstaklingum en hjá lögaðilum verði einn gjalddagi.

Við fengum ágæta gesti fyrir nefndina og þar með fæddist þessi breytingartillaga um að í stað þess að gjaldið yrði innheimt í ágúst, október og desember verði það í ágúst, september og október. Er þetta vegna hagræðingar við innheimtu og þarna næst að spara fjármuni. Um það snýst þetta nú allt saman, starf okkar hér á þessu sumarþingi, að fjalla um breytingar og reyna að ná sem mestri hagræðingu í öllum þeim ákvörðunum sem hér eru teknar, í ljósi þess efnahagsástands sem við búum við. Þetta er í sjálfu sér hollt fyrir okkur og að sjálfsögðu á stöðugt að hafa í huga hvernig kostnaður verður til og hvernig við ætlum að nýta sem best þær krónur sem til falla og við höfum til umráða í þessu ástandi.

Mig langar að þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir athyglisverðar hugmyndir sem hann fram kom með og viðurkenni að þær voru ekki ræddar í nefndinni og komu ekki upp á fundi nefndarinnar. Því tel ég því fulla ástæðu til þess að við tökum þetta inn í nefndina á milli umræðna og ræðum það. Jafnframt væri ágætt að vita hvort mögulegt væri að fá einhvers konar umsögn þá frá efnahags- og skattanefnd þar sem þetta er í rauninni skattamál en ekki mál sem varðar menntamálin sem slík eða hlutverk menntamálanefndarinnar.

Jafnframt eru athyglisverðar þær hugmyndir sem hann er með varðandi fyrirtækin. Að sjálfsögðu gengur ekki eins og ástandið er hjá íslenskum fyrirtækjum að verið sé að bæta þessum skatti á fyrirtæki sem eru í rauninni kannski ekki í rekstri og eru ekki með starfsmenn í vinnu. Eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal komst svo skemmtilega að orði þá eru það ekki bátarnir sem horfa á sjónvarpið alla dagana. Þetta er því mál sem ég tel að við verðum að taka til umfjöllunar.

Við sitjum hér, hv. þingmenn, á þessu sumarþingi og förum yfir ýmis mál, við í menntamálanefnd erum að fara yfir þessi gjalddagamál meðan aðrar nefndir eru að fjalla um Icesave-samkomulagið, og það er að sjálfsögðu mjög mikilvægt að við vöndum okkur, að við köstum ekki til höndum og reynum að afgreiða málin hratt — sem er að sjálfsögðu alltaf kostur — en við þurfum að nota tímann vel og einbeita okkur að því að við náum þá a.m.k. sem bestri niðurstöðu þrátt fyrir að þingmenn séu að sjálfsögðu með hugann við önnur stærri mál. Við megum engu að síður, fyrst þetta mál er hér á dagskrá, og dagskráin eins og hún liggur fyrir í dag er sambland af ýmsum misstórum málum, aldrei missa sjónar á því að vanda okkur.

Ég tek því einfaldlega undir þessi sjónarmið hv. þm. Pétur H. Blöndals um að það er full ástæða til að ræða þetta í nefndinni og jafnframt þau sjónarmið sem komu fram hjá hv. þm. Eygló Harðardóttur, sem situr með mér í menntamálanefndinni, að við þurfum að opna augun og vanda okkur í því sem við erum að gera í nefndinni.

Að öðru leyti vonast ég bara til þess að við eigum áfram gott samstarf í nefndinni um þetta mál og hef í rauninni ekki meiru við málið að bæta.