137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

aðild starfsmanna við samruna félaga með takmarkaðri ábyrgð yfir landamæri.

37. mál
[14:41]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér innleiðingu á tilskipunum frá Evrópusambandinu og þetta mál ásamt næstu tveimur málum eru á dagskrá þingsins. Það er táknrænt fyrir þessa ríkisstjórn og hennar áherslur að þetta eru fyrstu og einu málin sem hæstv. félagsmálaráðherra hefur lagt fyrir þetta sumarþing. Ríkisstjórnin segist hafa verið stofnuð til þess að standa vörð um heimilin, til þess að slá skjaldborg um heimilin og atvinnulífið í landinu, en þetta eru einu málin sem hæstv. félagsmálaráðherra, sem stýrir því ráðuneyti sem ætti að vera í forustu um skjaldborg heimilanna, setur fram á þinginu. Þetta er dæmigert fyrir áherslur þessarar ríkisstjórnar og hún endurspeglast í þeirri umræðu sem okkur er ætlað að fara í gegnum hér í dag, þeirri dagskrá sem liggur fyrir þinginu. Áherslur ríkisstjórnarinnar liggja þar. Það er magnað að fylgjast með getuleysi hæstv. ríkisstjórnar til þess að snúa sér að þeim raunverulegu vandamálum sem eru í samfélagi okkar og liggja fyrir þjóðinni.

Atvinnuleysi hér er stöðugt og mikil óvissa er um framtíðina. Í raun er ekkert annað í pípunum en aukin gjaldþrotahrina fyrirtækja nú seinni part sumars og á haustdögum. Það heyrum við alls staðar úr atvinnulífinu. Fyrirtæki fara í raun hvert á fætur öðru að undirbúa að fara í þrot með tilheyrandi áhrifum á vinnumarkaðinn og auknu atvinnuleysi á haustdögum.

Hverjar eru þá úrlausnir þessarar ríkisstjórnar í atvinnumálum? Ég veit ekki hvort meining hæstv. félagsmálaráðherra, þegar hann talaði fyrir því að atvinnumálin þyrftu að fara inn í félagsmálaráðuneyti, var að hann væri að gefast upp á verkum og vinnu annarra ráðuneyta og ráðherra í hæstv. ríkisstjórn, aðgerðaleysi, sinnuleysi og úrræðaleysi þegar kemur að málefnum atvinnumarkaðarins, fyrirtækjanna í landinu og þar með málefnum heimilanna. Einu úrræði þessarar ríkisstjórnar í þeim málum hafa verið auknir skattar, aukin gjaldtaka. Það eru skilaboðin til fólksins. Við ætlum að pína ykkur enn meira í skattheimtu og aukinni gjaldtöku. Á hverjum var byrjað? Jú, það var byrjað á þeim sem ætti kannski helst að slá skjaldborg um, öldruðum og öryrkjum. Á þeim vettvangi var byrjað að skera niður fyrst og fremst.

Ég veit ekki, virðulegi forseti, hvert þessi ríkisstjórn er að fara. Það er í raun ekkert annað en vanvirða bæði við þing og þjóð að við skulum vera hér núna þegar júlí er að verða liðinn, haldandi starfsfólki þingsins frá því að geta tekið sín sumarleyfi, ræðandi þau mál sem eru lögð fyrir okkur. Þetta er alveg hreint með ólíkindum. Það er ekki eins og hér sé ekki hægt að ræða aðrar tillögur, önnur miklu brýnni mál. Bæði frá Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki liggja fyrir ítarlegar tillögur í efnahagsmálum, ítarlegar tillögur í skattamálum sem munu milda þær leiðir sem verið er að fara. Þær koma í raun algjörlega í stað þeirra sársaukafullu leiða sem þessi ríkisstjórn hefur valið að fara.

Þessi ríkisstjórn hefur engin úrræði í atvinnumálum, það er einn af þeim stóru málaflokkum sem hún getur ekki komið sér saman um. Auðvitað er rosalega alvarlegt þegar fagmenn og opinberir aðilar, stofnanir og alþjóðastofnanir, vekja á því athygli að viðspyrna Íslendinga til að komast út úr þeim hremmingum sem við erum í og koma aftur á stöðugleika í efnahagslífi liggur í því að efla atvinnustigið í landinu. Það er ekki eins og við eigum ekki tækifæri umfram aðra í þeim efnum, virðulegi forseti. Við eigum tækifæri sem við erum öfunduð af og aðilar eins og OECD hafa bent á að nýting náttúruauðlinda og aukin stóriðja eru þau atriði sem ber að leggja áherslu á til þess að ná stöðugleika á ný.

Þessi ríkisstjórn er hér með dagskrá í nítján liðum um nánast ekki neitt. Mér ofbýður þetta og ég er ekki einn um það. Auknir skattar og gjöld er það sem þau boða. Til þess að hvetja nú fyrirtæki eða hitt þó heldur til þess að horfa til Íslands og koma með starfsemi sína og fyrir fyrirtæki innan lands til þess að berjast áfram, reyna að halda sinni stöðu og skapa hér atvinnu þá boða þau enn frekar aukna skatta. Eða hvað sagði í skýrslu fjármálaráðuneytisins fyrir stuttu síðan? 7,5 milljarðar skulu koma inn í formi auðlindaskatts á næstu mánuðum og árum. 7,5 milljarðar til þeirra sem ætla að nýta hér auðlindir til atvinnusköpunar. Er þetta líklegt til þess að hvetja fyrirtæki til dáða eða hvetja erlend fyrirtæki til að horfa til Íslands sem möguleika á að koma upp sinni starfsemi? Menn tala alltaf eins og við búum ekki við neina samkeppni á þessum vettvangi en hún er mikil.

Virðulegi forseti. Ég vil hvetja forseta þingsins til þess að tala við þessa ríkisstjórn um að hún hætti að eyða tíma manna í það úrræðaleysi sem hún hefur upp á að bjóða. Að hún fari að taka til á sínu heimili og komi fram með þau mál sem hún lofaði, mál sem skipta heimilin og fyrirtækin í landinu einhverju, mál sem skipta þessa þjóð máli og gefa henni von. Það er lágmarkskrafa okkar og við í stjórnarandstöðunni gerum þá kröfu að hér verði farið að taka á alvörumálum.

Það er alveg ljóst að hið svokallaða Icesave-mál er í uppnámi í ríkisstjórninni. Ríkisstjórnin kemur því ekki í gegn óbreyttu og það er tímabært að hæstv. ráðherrar geri sér grein fyrir því og fresti málinu, fari til þeirra sem þeir voru að semja við og segi að þetta gangi ekki upp. Það liggur orðið fyrir samkvæmt yfirlýsingu þingmanna úr þeirra eigin röðum að þetta mál fær ekki þann endi sem þeir lögðu af stað með.

Á meðan skulum við vera tilbúin til þess eins lengi og með þarf að ræða hér þau mál sem skipta máli. Að hér komi fram tillögur sem verði til þess að efla atvinnulífið, vernda heimilin í landinu og gefa þessari þjóð einhverja von næstu mánuði og ár.