137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

aðild starfsmanna við samruna félaga með takmarkaðri ábyrgð yfir landamæri.

37. mál
[14:56]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sannleikanum er hver sárreiðastur. Þannig met ég málflutning þeirra fulltrúa stjórnarflokkanna sem taka til máls. Vinnandi fólk heldur uppi fyrirtækjunum í landinu. Það er alveg rétt. En það eru líka fyrirtækin í landinu sem halda uppi heimilunum og án þeirra verður ekkert vinnandi fólk. Þessu virðast hæstv. ríkisstjórn og hv. þingmenn ekki gera sér grein fyrir og tilskipanir sem þær sem við erum að fjalla um hafa ekkert erindi, engan tilgang ef við erum með viðvarandi og bullandi atvinnuleysi. Um það snýst þetta og þess vegna, virðulegi forseti, af því að þú gerir athugasemdir við að ég skuli ræða málið á þessum nótum, er sterk tenging við þau mál sem við ræðum hérna.

Það er full ástæða til að vekja athygli á því að sá ráðherra í þessari ríkisstjórn sem á að fara með velferð heimilanna (Gripið fram í: Velferðarstjórnin.) já, velferðarstjórnin, og það ráðuneyti sem á að slá skjaldborg um heimilin í landinu, aldraða og öryrkja, sem hefur verið ráðist hvað harðast á á þeim vikum sem við erum búin að starfa í sumar, hefur haft þessi einu þrjú mál fram að færa á þessu sumarþingi. Efnislega hef ég engar athugasemdir, eins og ég hef sagt áður, við það sem verið er að keyra í gegn. En málavalið hef ég athugasemdir við og það er sterk tenging, virðulegi forseti, milli þess sem ég er að ræða og þeirra mála sem eru til umræðu.