137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

aðild starfsmanna við samruna félaga með takmarkaðri ábyrgð yfir landamæri.

37. mál
[14:59]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Oft og tíðum þegar maður tekur þátt í umræðu á hinu háa Alþingi virðast þingmenn vinstri flokkanna ekki skilja það sem við í stjórnarandstöðunni erum að reyna að segja, hvort sem það er viljandi eða óviljandi. Ég átta mig ekki á því. En hv. þm. Álfheiður Ingadóttir virðist alls ekki skilja hvað ég er að fara. (ÁI: Nei.) Nei, og þetta fjallar ekkert efnislega um þau mál sem koma hérna inn. Þetta fjallar um forgangsröðunina sem er hjá ríkisstjórninni, að hér skuli dagskráin vera eins og hún er í dag, þegar við eigum að vera að ræða önnur og miklu mikilvægari mál. Svona mál eru afgreiðslumál sem geta rúllað í gegn en það er táknrænt fyrir vinnubrögð þessarar ríkisstjórnar að þetta skuli vera einu málin sem eru komin frá velferðarstjórninni, frá því ráðuneyti sem á að slá skjaldborg um heimilin og standa vörð um hagsmuni eldri borgara og öryrkja í þessu landi.