137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

aðild starfsmanna við samruna félaga með takmarkaðri ábyrgð yfir landamæri.

37. mál
[15:03]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort það ræður einhverju hjá hæstv. ráðherra dýrkun hans á Evrópusambandinu og mikill áhugi á því að ganga í það samband að það skuli ráða vali þeirra mála sem ráðuneyti hans leggur áherslu hér á. Orkan hefur ekki farið í þessi mál, segir hann, ekki eingöngu, og við munum verða vör við það í haust hvaða aðrar aðgerðir og ráðstafanir hæstv. ríkisstjórn ætlar að bjóða þjóðinni upp á. Voru það loforðin sem þessi ríkisstjórn gaf þegar hún tók við um mánaðamótin janúar/febrúar fyrr á þessu ári? Lofaði hún þjóðinni að koma með eitthvað í haust?

Í haust verður einfaldlega of seint fyrir marga, það er bara það sem brennur, og það virðist þessi hæstv. ríkisstjórn ekki skilja. Hún virðist ekki skilja það alvarlega ástand sem er í samfélaginu í dag og þá alvarlegu þróun sem á sér stað. Hún er ekki að grípa til aðgerða eða vinnu til þess að sporna við þar. Hún er miklu frekar að grípa til aðgerða sem draga úr mætti fyrirtækjanna til þess að efla starfsemi sína. Hún er að senda þau skilaboð út á markaðinn að menn eigi frekar að draga saman seglin en að blása í þau. Það er staðreyndin í þessu máli.

Hún liggur á mörgum vettvangi þessi aukna skattheimta, sú aukna gjaldheimta sem er boðuð. Það er boðað í tilvonandi loftslagsviðræðum að við ætlum að falla frá þeirri mikilvægu viðurkenningu sem við fengum í Kyoto, við ætlum að gefa það eftir í viðræðunum í Kaupmannahöfn, það á að vera fyrsta útspil okkar þar, endilega að draga nú úr bjartsýni manna um að hér sé eitthvað hægt að gera af viti.

Eins og hæstv. ráðherra vitnaði í talaði hv. þm. Pétur Blöndal um að það væri hvorki hægt (Forseti hringir.) að fella né samþykkja Icesave-samninginn. Það er nákvæmlega staðan, nákvæmlega sú er staðan, (Forseti hringir.) og þess vegna á þessi ríkisstjórn að taka málið til sín aftur og vinna það betur.