137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

aðild starfsmanna við samruna félaga með takmarkaðri ábyrgð yfir landamæri.

37. mál
[15:05]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að skattyrðast við hv. þingmann í þessum tón. Staðan er ósköp einfaldlega þannig að af hálfu ríkisstjórnarinnar hefur verið lögð áhersla á það frá fyrsta degi að grípa til aðgerða fyrir skuldug heimili, fyrir fólk sem er að missa vinnuna. Þess vegna var t.d. gengið frá mjög mikilvægum lagabreytingum sem varða atvinnuleysistryggingar strax á þingi í mars og við búum auðvitað að því. Það voru engar aðrar lagabreytingar fyrirliggjandi sem þurfti að leggja fram þegar ég kom í þetta ágæta ráðuneyti og það er ekki þannig að menn hafi ekki verið að vinna vinnuna sína. Við höfum verið að leggja grunninn, við höfum verið að setja lög og síðan höfum við verið í sumar, eins og hv. þingmaður þarf nú að reyna að viðurkenna, að grípa til aðgerða sem skipta mjög miklu máli um lánshæfismat ríkisins, um getu fyrirtækjanna til þess að fjármagna sig með því að semja um uppskiptingu gömlu og nýju bankanna, með því að ganga frá aðildarumsókn að Evrópusambandinu, (Forseti hringir.) með því núna að leggja grunn að því að loka deilum við erlend ríki með (Forseti hringir.) Icesave-samkomulaginu. Allt mun þetta styðja undir efnahagslíf í landinu (Forseti hringir.) hratt og örugglega.