137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

starfsmenn í hlutastörfum.

70. mál
[15:14]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Mósesdóttur fyrir framsögu hennar. Það hefur komið fram að hér sé verið að innleiða tilskipanir Evrópusambandsins eða réttara sagt það er verið að gera réttarbætur á því, það er verið að laga þær til. Hæstv. félagsmálaráðherra lét svo líta út í máli sínu áðan að verið væri að leiða þetta í lög en þetta er lagasetning sem er löngu komin til og er raunverulega verið að laga.

Í máli hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur hér áðan kom fram að þetta snerist allt saman um réttarbætur starfsmanna. Svo er nú ekki með þetta frumvarp því að það er til komið vegna þess, með leyfi forseta, að Eftirlitsstofnun EFTA hefur talið þær undanþágur sem í lögunum felast allt of víðtækar, þ.e. þær undanþágur sem voru lögfestar í 3. og 4. mgr. 2. gr. laga nr. 10/2004, um starfsmenn í hlutastörfum. Hér er því ekki um réttarbætur að ræða því að verið er að þrengja þann rétt sem starfsmenn í hlutastörfum hafa og það eru þeir starfsmenn sem eru þarna nánar taldir upp og hv. þingmaður fór yfir í máli sínu.

Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann: Þegar svona innleiðingar og leiðréttingar á EES-gerðum eru gerðar, hvernig líður þá viðkomandi þingmanni varðandi það, því að þetta er náttúrlega tekið hér upp í gegnum innleiðingar frá Evrópusambandinu. Finnst henni hún ekki vera að eyða sínum tíma í mikinn óþarfa að þurfa að leggja það hér fram á þingi og sitja yfir þessu og fjalla um það í félags- og tryggingamálanefnd á meðan heimili og fyrirtæki brenna? Væri tíma hv. viðskiptanefndar ekki betur (Forseti hringir.) varið í önnur störf?