137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

starfsmenn í hlutastörfum.

70. mál
[15:18]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í athugasemdum við lagafrumvarp það sem varð að lögum árið 2004 með lögum númer 10 segir, með leyfi forseta:

„Í inngangsorðum rammasamningsins kemur fram að hann sé framlag til skipulags atvinnumála í Evrópu. Þar eru settar fram almennar meginreglur og lágmarkskröfur er varða hlutastörf. Í samningnum komi fram vilji aðila vinnumarkaðarins til að setja almennan ramma í því skyni að uppræta mismunun gagnvart launþegum í hlutastörfum og til að auka möguleika á hlutastörfum á forsendum sem eru viðunandi bæði fyrir vinnuveitendur og launþega.“

Þarna er þetta alveg skýrt. En svo segir um 2. gr., sem nú er verið að fella út, 3. og 4. mgr., að þar sé ekki gert ráð fyrir því að heimilt sé að undanskilja ákvæðum frumvarpsins þá starfsmenn ríkis og sveitarfélaga sem fá greitt tímavinnukaup eins og það er oftast nefnt í kjarasamningnum. Þarna er verið að breyta þessu og hv. þm. Lilja Mósesdóttir var að tala hér um að þetta væru til dæmis háskólakennarar og fleiri og þarna er verið þá að fella þetta úr gildi. En ég endurtek það sem ég sagði áðan að frumvarpið er tilkomið vegna þess að eftirlitsstofnunin taldi þessar undanþágur allt of víðtækar, sem voru lögfestar með þessum lögum á sínum tíma og nú er verið að leiðrétta það. Þetta er nú ekki svo sem fyrsta athugasemdin sem Eftirlitsstofnun EFTA gerir við íslenska löggjöf og lagasetningu á þessum ESB-gerðum sem við höfum þurft að taka hér upp í íslenskan rétt. Það er nú ágætt að einhverjir hafi vinnu við það því að þetta virðist oft vera ansi misskilið og illa túlkað þegar löggjafinn hér Íslandi setur svo lög í framhaldi af þessu.

Mig langar til að spyrja þingmanninn á ný, því að hún rann út á tíma hér í fyrra andsvarinu: Er ekki svolítið sorglegt að eyða öllum þessum tíma nú á sumarþinginu í viðskiptanefnd í að fjalla um svona mál og fá til sín fólk á meðan heimilin og fyrirtækin eru að brenna upp og ekkert er gert fyrir þau á meðan?