137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

starfsmenn í hlutastörfum.

70. mál
[15:22]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér breytingar á lögum sem var ætlað að innleiða reglur tilskipunar Evrópusambandsins um hlutastörf. Eins og ég gat um í fyrri ræðu um annað mál sem var á undan vil ég gjalda ákveðinn varhuga við tilskipunum Evrópusambandsins vegna slæmrar reynslu. Mér þykir ekki mjög gott að heyra að mönnum þyki það hafa verið gott að hafa afgreitt málið á stuttum tíma. Ég held að menn þurfi alveg sérstaklega að skoða þessar tilskipanir eftir þá döpru reynslu sem Íslendingar hafa orðið fyrir vegna þessara tilskipana. Þá er ég bæði að tala um hrunið í haust sem er að hluta til vegna reglna Evrópusambandsins en alveg sérstaklega Icesave-vandann sem við erum að glíma við þessa dagana, sem er bein afleiðing af gölluðu regluverki Evrópusambandsins. Ég hef sem sagt lagt til að menn væru sérstaklega varkárir þegar eitthvað kæmi inn í nefndir þingsins sem fjallar um Evróputilskipanir þannig að ég held að það sé ekki gott að menn hafi afgreitt þetta á stuttum tíma.

Hlutastörf hafa bæði kosti og galla og þau eru mjög mikilvæg í þjóðfélögum. Þau auka sveigjanleika þjóðfélagsins mjög mikið. Það hentar oft bæði starfsmönnum og fyrirtækjum að ráða fólk í hlutastörf. Reyndar má segja að þetta sé kannski orðið fullmikið hér á landi með hlutastörfin. Fólk er oft í vandræðum með að útskýra hvar það í rauninni vinnur vegna þess að það vinnur hér við þetta starf og svo annars staðar í einhverju öðru starfi og stundum um helgar og stundum á kvöldin og hjá mörgum mismunandi fyrirtækjum þannig að þetta getur orðið mjög skrautlegt, sérstaklega hjá yngra fólki. Þetta er mjög veigamikill þáttur og það er mjög mikilvægt að um þetta séu reglur. Reyndar fjallar það frumvarp sem hér er verið að ræða eiginlega ekkert um þetta heldur er verið að afnema undanþágur sem menn settu á sínum tíma varðandi opinber fyrirtæki. Þar af leiðandi skiptir þetta, held ég, ekki mjög miklu máli fyrir atvinnulífið í heild.

Ég má til með, frú forseti, að koma inn á það sem hér var rætt áðan, þ.e. umræðu sem hv. þm. Jón Gunnarsson kom inn á, að við erum hér að ræða í hverju málinu á fætur öðru alls konar innleiðingar á reglum sem heyra undir félags- og tryggingamálanefnd og eru til þess að bæta stöðu fólks eða jafnvel eins og þetta frumvarp að skerða rétt sem var veittur of rúmur. En á sama tíma — ég leyfi mér að taka það í samhengi, frú forseti, og vona að ég fái ekki ákúrur fyrir það — á sama tíma er nefndin eiginlega að bíða eftir því að ríkisstjórnin sýni frumkvæði í því að slá skjaldborg um heimilin og vandamál þeirra. Það eru ákveðin vandamál hjá heimilunum. Stór hluti fólks hefur orðið atvinnulaust. Það er allt of mikið atvinnuleysi sem við viljum ekki sjá hér á landi, þó að það sé reyndar reglan í fyrirheitna landinu sem búið er að taka ákvörðun um að sækja um. Þar er reglan 8% atvinnuleysi, búið að vera í 30–40 ár svo. Það er ekkert nýtt og bara allt að því náttúrulögmál í því ágæta ríkjasambandi. En hér á landi hefur atvinnuleysi verið miklu minna og víðast hvar í heiminum yrði það flokkað undir atvinnuskort og mér finnst það miklu jákvæðara. Það er nefnilega þannig að þegar það er atvinnuleysi þá gerast hlutir — það er nú þannig með mannskepnuna, frú forseti, þó að ég kannski megi ekki tala um það, að hún notar sér valdastöðu. Þegar atvinnurekendur uppgötva að tíu, tuttugu manns bíða eftir hverju starfi sem losnar þá falla athugasemdir eins og þessar: „Ertu nokkuð að hætta hjá okkur?“, þegar starfsmaðurinn leyfir sér að biðja um launahækkun eða eitthvað slíkt. Það hef ég heyrt á starfsmönnum úti í Þýskalandi sem ég þekki, vinum mínum, að ef þeir biðja um launahækkun eða tala eitthvað um að bæta sín kjör þá er þeim svarað með spurningunni: „Ertu nokkuð að hætta hérna hjá okkur, vinurinn?“ Þá eru atvinnurekendur farnir að nota sér stöðuna til þess að kúga starfsmennina.

En það merkilega er að það öfuga gerist nefnilega líka þegar það er skortur á vinnuafli. Ég hef lent í því sem atvinnurekandi að til mín kom fólk sem spurði: „Hvað borgarðu í dag?“ Og ef ég borgaði ekki nógu mikið í dag þá bara hætti það, bara viðstöðulaust, bara labbaði út og sem sagt var í rauninni að nota sér þá stöðu að það gat fengið vinnu hvar sem var og það er heldur ekki heilbrigt. Þarna þarf því að vera ákveðið jafnvægi. Ég tel að það atvinnuleysi sem við höfum haft undanfarið, 2–3%, sé í rauninni ákveðið jafnvægisatvinnuleysi sem er bara mjög gott og jákvætt.

Nú erum við sem sagt komin með allt of mikið atvinnuleysi og ég hefði talið að það væri boðlegt verkefni fyrir hv. félags- og tryggingamálanefnd að fjalla um það og hvernig eigi að leysa það. Hvað gerum við til að leysa atvinnuleysið og hvað gerum við sérstaklega til að milda áhrif atvinnuleysis á félagslega stöðu fólks, sem er mjög alvarleg? Það er nefnilega ekkert grín þegar fólk sem er kannski með 500 þús. kr. á mánuði fellur allt í einu niður í það að vera með 150 þús. kr. á mánuði fyrir skatt í atvinnuleysisbætur og allar skuldbindingar halda að sjálfsögðu áfram sem fólk er búið að gíra sig inn á. Svo ég tali nú ekki um fólkið sem var í bönkunum með miklu hærri laun. Þar er félagslega fallið enn meira og enn alvarlegra og á því hefur ekki verið tekið neitt sérstaklega vel. Þó að það sé búið að gera reyndar ansi margt þá finnst mér, frú forseti, að nefndir þingsins og þingið sjálft ætti að ræða meira um þau vandamál sem knýja á hjá almenningi. Ég sakna þess að hæstv. félagsmálaráðherra hefur ekki komið með nein úrræði önnur en þau sem hér er um að ræða.

Þessi frumvörp sem við ræðum í dag, þessi innleiðing og leiðrétting á Evrópusambandstilskipunum breyta ósköp litlu fyrir hinn venjulega launamann á Íslandi. Það eru ekkert voðalega margir sem starfa hjá fyrirtækjum sem hafa verið sameinuð yfir landamæri, hvað þá að þeir njóti ákveðinna réttinda við það samrunaferli vegna þess að réttindin hér á landi eru nú ekkert mikið frábrugðin eða miklu meiri en annars staðar þannig að íslenskir starfsmenn njóta þess ekkert voðalega mikið. Ég held að þessi tilskipun hérna, sem er nú skerðing á réttindum, bæti ekki neitt, hvað þá þær innleiðingar sem við ræðum hér á eftir. Þetta þarf að sjálfsögðu að innleiða en ég hefði talið að menn ættu að nýta annan tíma til þess en einmitt núna. Núna ætti Alþingi að vera að fjalla um lausnir, hvernig við leysum vandamál heimilanna, fyrirtækjanna sem veita atvinnu og tengjast vandamálum heimilanna beint vegna þess að þegar fyrirtæki fer illa og fer á hausinn og segir upp starfsmönnum þá verður fólk atvinnulaust og þá vantar pening heima hjá því. Það er vandamál sem við hér á Alþingi ættum að vera að ræða miklu meira en við höfum gert. Ég vil bara benda á þetta í umræðunni, frú forseti, og þó að það varði ekki beint það mál sem ég er að ræða hér þá ætla ég að leyfa mér að gera það samt.