137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

starfsmenn í hlutastörfum.

70. mál
[15:30]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir að koma hér og reifa þetta mál fyrir okkur. Vissulega blandast þessi mál saman og við komumst alltaf að sömu niðurstöðu um að það sé skrýtið að þessi mál skuli vera til umræðu nú, miðað ástandið í landinu. Allir þingmenn sem koma hér upp komast að kjarna málsins, þ.e. að hér eru mikil vandræði og það er ekki verið að taka á vandanum, heldur er verið að reyna að vinna tíma á þinginu vegna þess að ríkisstjórnin er komin með allt í vandræði. Þá erum við aðallega að tala um hið svokallaða Icesave-mál. Þingmönnum er haldið í þinginu til þess að reyna að sýna að hér sé eitthvað að gerast og að eitthvað sé í gangi.

Ég tek undir með hv. þingmanni, þetta er orðið nokkuð skrýtið allt saman. Áhersla hæstv. félagsmálaráðherra á þetta mál er afar einkennileg því að það hefði svo sannarlega getað beðið fram að haustþingi. Raunverulega er þetta uppfærsla á EES-reglugerðum sem við verðum hvort sem er að innleiða í lög þegar búið er að benda okkur á að þær hafi verið rangt innleiddar eða að vantað hafi upp á þegar þær voru settar á sínum tíma sem lög.

Ég vil spyrja hv. þm. Pétur Blöndal í framhaldi af þessu. Hér er mikið atvinnuleysi og þetta er til þess að auka rétt aðila í hlutastörfum. Hver er hans skoðun á því hvernig atvinnulífið og launþegar komu út úr því þegar lögum var eftir bankahrunið breytt í þá veru að starfsmenn fengu atvinnuleysisbætur á móti hlutastörfum? Nú hefur komið í ljós að þær eru að einhverju leyti misnotaðar. Telur þingmaðurinn ekki að það hafi samt verið (Forseti hringir.) til bóta á sínum tíma að bregðast við á þennan hátt?