137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

starfsmenn í hlutastörfum.

70. mál
[15:35]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir andsvarið. Við erum þá að nokkru leyti sammála um að þetta hafi verið afar góð tilraun á sínum tíma. Hugsunin á bak við hana, alveg eins og hv. þingmaður fór yfir, er að fólk hafi kost á því að fá atvinnuleysisbætur niður í 50% því að ef það fer niður í 49% starfshlutfall og neðar er viðkomandi starfsmaður flokkaður sem atvinnulaus og fer þá á fullar bætur.

Hins vegar hefur ekki verið mikið rætt um að launþegarnir reyndust ekki endilega vera aðalskúrkarnir heldur bar svolítið á því hjá fyrirtækjum að launþegum var sagt upp og minnkað hjá þeim starfshlutfall, bara af því að þarna myndaðist gloppa, þó að kannski hefði ekki verið þörf á að segja viðkomandi starfsmanni upp eða lækka starfshlutfallið. En við skulum vona að þegar frá líður nái þetta jafnvægi því að svona aðgerðir eru fyrst og fremst gerðar fyrir fólkið sem þarf á þeim halda en ekki þá sem sjá sér hag í því að brjóta reglurnar. Þetta er eins og ég segi ágæt tilraun.

Í lokin hef ég spurningu til hv. þingmanns varðandi þetta. Sér hv. þingmaður fyrir sér að í framtíðinni fjölgi hlutastörfum? Sér hann þá ekki tækifæri í því að fólk sé á atvinnuleysisbótum og taki svo kannski að sér störf við mannúðarmál? (Forseti hringir.) Þá er ég að tala um í skólum, mötuneytum og víðar þannig að fólk geti verið í vinnu á atvinnuleysisbótum eins og tíðkast víða, (Forseti hringir.) t.d. í Kanada.