137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

starfsmenn í hlutastörfum.

70. mál
[15:37]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þessi umræða er að verða mjög áhugaverð vegna þess að það hefur sýnt sig að atvinnuleysi hefur hörmulegar afleiðingar fyrir þann atvinnulausa og þjóðfélagið í heild. Í fyrst lagi er í atvinnuleysi ekki verið að nýta vinnukraft allrar þjóðarinnar og í öðru lagi gerist það inni í hverjum manni sem verður atvinnulaus, nema hann sé þeim mun sterkari, að sjálfsálitið og sjálfsmyndin brotna. Jafnvel svo að rannsóknir hafa sýnt að fólk sem er um sex, átta mánuði frá vinnumarkaði er nánast orðið öryrkjar. Það eru sem sagt mjög litlar líkur á því að fólk sem lendir í þeirri stöðu fari nokkurn tíma að vinna aftur.

Þetta er mjög dapurlegt og mér finnst að við eigum að vinna gegn þessu með því að virkja þá sem eru atvinnulausir. Hreinlega segja þeim að þeir eigi að mæta einhvers staðar og læra. Hægt er að fá hluta af atvinnuleysingjum sem eru menntaðir til þess að kenna hinum sem eru ómenntaðir. Ég held að við þurfum að fara að skoða þetta með allt, allt öðru hugarfari en gert hefur verið, að setja fólk bara til hliðar og láta það eiga sig af því að þannig koðnar maður niður. Ég held að það sé mjög mikilvægt að menn séu virkjaðir. Það er t.d. mjög góð hugmynd að fólk fari að vinna, þá jafnvel kauplaust, við alls konar störf sem er þörf á, jafnframt atvinnuleysisbótunum, eða hreinlega að það verði á launum og fái þá kannski eitthvað hærri laun en atvinnuleysisbæturnar eru til þess að hvetja það til að stunda störf.

Ég held nefnilega að virknin sé eitt almikilvægasta meðalið gegn því niðurbroti sem ég gat um. Þetta á ekki síður við um öryrkja, virkni öryrkja mætti vera mikið, mikið meiri.