137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

tímabundin ráðning starfsmanna.

78. mál
[15:44]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ráðningarsamningur er samningur milli tveggja aðila og væntanlega er beggja hagur að gera ákveðinn samning. Það ætti að vera þannig en þó myndast oft misvægi. Þegar skortur er á vinnuafli eða skortur á vinnu, atvinnuleysi, getur myndast misræmi. Þegar fólk ræður sig í vinnu getur vel verið að launþeginn vilji gjarnan hafa vinnuna tímabundna og ekki hafa ótímabundinn ráðningarsamning, það er ekki endilega alltaf atvinnurekandinn sem knýr á um að samningar séu tímabundnir. Þessi tilskipun og þessar reglur sem við erum að setja í lög skerða í rauninni samningsfrelsi launþeganna líka.

Ég vildi bara benda á þetta, það er ekki alltaf fyrirtækið sem stjórnar því hvernig ráðningarsamningar eru heldur líka launþegarnir. Sú staða gæti komið upp að einhver vildi ráða sig fram á haustið, þá vildi hann vera laus og ekkert þurfa að segja upp sérstaklega vegna þess að hann ætlar að fara í nám t.d. Vel má vera að þessi lög og þessar reglugerðir geri slíkt ómögulegt. Hafi maður verið í starfi tímabundið fram á vor, af því að þá þurfti hann að fara í vorpróf eða eitthvað slíkt, getur hann lent í því að vera kominn í ótímabundna vinnu og þurfa að segja upp með formlegum fyrirvörum eins og um ótímabundinn samning væri að ræða.